Gengið verður til kosninga nú á þriðjudag en mjótt hefur verið á munum milli frambjóðendanna tveggja.
Samkvæmt könnun sem gerð var af NBC-Wall Street Journal hefur Clinton fjögurra prósenta forskot á Trump. Niðurstöður hennar eru á þá leið að 44 prósent aðspurðra kváðust kjósa Clinton en 40 prósent sögðust styðja Trump.
Þrátt fyrir að Clinton mælist með forskot á Trump hefur fylgi hennar dalað á síðustu vikum. Um miðjan mánuð mældist hún með ellefu prósenta forskot á andstæðing sinn. Líkur eru á að rannsókn alríkislögreglunnar á nýlega afhjúpuðum tölvupóstum Clinton hafi átt þátt í fylgistapi hennar.

Samkvæmt skoðanakönnunum nýtur Clinton einnig meira fylgis í Flórída en talið er að nauðsynlegt sé fyrir Trump að sigra í ríkinu til þess að ná kjöri.
Ríkið er svokallað „swing-state“ en með því er átt við að ekki er augljóst hvort meirihluti íbúa kjósi forsetaefni Demókrata eða Repúblíkana. Því er oft mjótt á munum milli frambjóðenda í fylkinu, til að mynda sigraði Obama mótherja sinn Mitt Romney í Flórída með aðeins 0,9 prósenta mun.