„Ég hef sagt og gert ýmislegt sem ég sé eftir,“ sagði Trump í sjónvarpsviðtali í morgun. „Allir sem þekkja mig vita að þessi orð endurspegla ekki hver ég er. Ég hafði rangt fyrir mér og ég biðst afsökunar.“
Trump sagði í myndbandinu geta komist upp með hvað sem er vegna frægðar sinnar. Hann stærði sig meðal annars af því að hafa ítrekað reynt að sænga hjá giftum konum, hann geti þuklað á þeim og „gripið í píkuna á þeim“.
Áhrifafólk í Repúblikanaflokknum hefur fordæmt Trump fyrir ummælin. Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er þeirra á meðal en hann tilkynnti í gær að Trump væri ekki velkominn í fjáröflunarkvöldverð flokksins í Wisconsin um helgina. Orð Trump veki hjá honum viðbjóð, líkt og Ryan orðaði það.