Erlent

Donald Trump segir Hillary Clinton vera fordómafulla

Birta Svavarsdóttir skrifar
Hillary Clinton og Donald Trump.
Hillary Clinton og Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, hefur ásakað mótherja sinn, Hillary Clinton, um að vera fordómafulla. CNN og BBC fjölluðu um málið í dag.

Trump hyggst nú höfða til minnihlutahópa og á framboðsfundi í Mississippi sagði hann að Clinton „sæi litaða Bandaríkjamenn aðeins sem atkvæði, ekki sem manneskjur sem ættu rétt á betri framtíð.“

Í samtali við CNN í dag skaut Trump áfram föstum skotum og sagði, „Hún er fordómafull. Hún er ekki að gera neitt til að hjálpa þessum [minnihluta]samfélögum. Þetta er allt í munninum á henni, en hún gerir svo ekki neitt. Stefna hennar er fordómafull því hún veit að hún er ekki að fara að virka.“

Þá sagði Trump að sú stefna sem Demókrataflokkurinn væri að fylgja væri ástæða þess að svo illa væri komið fyrir minnihlutahópum í Bandaríkjunum í dag. „Sjáið bara allt sem hefur gerst vegna stefnu hennar og Obama. Sjáið bara alla fátæktina, hvernig hún eykst, og hvernig ofbeldi hefur aukist.“

Fréttamaður CNN spurði þá hvort hann teldi að þetta væri allt tilkomið vegna haturs og fordóma Hillary. „Já, eða kannski er hún bara löt,“ svaraði Trump.

Hillary Clinton svaraði upprunalegu ummælunum í símaviðtali á CNN. „Donald Trump hefur sýnt okkur hver hann er. Hann hefur gert hatursorðræðu að sinni ríkjandi stefnu og notað hana í kosningabaráttu sinni.“

„Þetta er maður sem hefur dregið ríkisborgararétt forsetans [Obama] í efa, hann hefur sóst eftir stuðningi frá öfgaþjóðernissinnum, hefur hótað fjöldabrottvísun múslima. Þetta er maður sem er sjálfur mjög fordómafullur í sinni stefnu.“


Tengdar fréttir

Trump sagði Obama vera stofnanda ISIS

Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblikana sagði í ræðu á kosningafundi í Flórída í gær að Barack Obama Bandaríkjaforseti væri stofnandi hryðjuverkasamtakanna ISIS.

Trump vill Kalda stríðs kannanir

Donald Trump, forsetaefni Repúblikanaflokksins, vill láta kanna skoðanir allra innflytjenda til Bandaríkjanna til að útiloka að þeir séu hlynntir hryðjuverkasamtökum eða hafi fjandsamleg viðhorf í garð Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×