Ryan Crouser tryggði sér sigur með því að setja nýtt Ólympíumet en hann kastaði lengst 22,52 metra í úrslitunum.
Crouser bætti þar með 28 ára gamal Ólympíumet Austur-Þjóðverjans Ulf Timmermann sem kastaði 22,47 metra á leikunum í Seoul 1988. Metið var því orðið 28 ára gamalt.
Ryan Crouser er 23 ára gamall og var að vinna sitt fyrsta gull á stórmóti. Hann var sá eini í úrslitunum sem kastaði yfir 22 metra og gerði það alls þrisvar sinnum. Ryan Crouser átti fjögur lengstu köstin í keppninni.
Bandaríkjamenn unnu tvöfalt því Joe Kovacs var annar með kast upp á 21,78 metra. Bronsið fór síðan til Nýja-Sjálands en Tomas Walsh kastaði kúlunni 21,36 metra.
Kóngómaðurinn Franck Elemba setti nýtt landsmet þegar hann kastaði 21,20 metra en hann var aðeins 16 sentímetrum frá verðlaunapallinum.
Ólyumpíumeistarinn frá því í London fyrir fjórum árum, Pólverjinn Tomasz Majewski, varð hinsvegar að sætta sig við sjötta sætið í keppninni.
