Um 249 þúsund Íslendingar eru á kjörskrá fyrir forsetakosningarnar. Kjörsókn var tæplega 70 prósent í forsetakosningunum árið 2012 og 63 prósent í kosningunum 2004. Í kosningunum 1996, þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fyrst kjörinn forseti, var kosningaþátttaka tæplega 86 prósent. Ólafur Ragnar var endurkjörinn árið 2000 og 2008 án kosninga.

Ef miðað er við að 187 þúsund manns gangi að kjörborðinu þá svarar 35 prósentustigamunurinn í dag til rúmlega 65 þúsund manns. Helmingurinn af þessum 65 þúsund manns þyrfti því að fara af „Guðna-vagninum“ yfir á „Davíðs-vagninn“ á næstu 30 dögum, þ.e. skipta um skoðun fyrir kjördaginn þann 25. júní. Það svarar til rúmlega eitt þúsund manns á dag sem þyrftu að skipta um skoðun og kjósa Davíð í stað Guðna þann 25. júní.

Í þessum pælingum að ofan, sem ætlað er að setja stöðuna í kapphlaupinu um forsetaembættið samkvæmt könnunum í samhengi, er ekki tekið tillit til þess að töluverður fjöldi verður búinn að greiða atkvæði fyrir 25. júní. Í kosningunum árið 2012 voru atkvæði utan kjörfundar rúmlega 23 prósent sem var óvenjuhátt hlutfall.
Reikna má með því að vegna Evrópumótsins í Frakklandi þar sem reikna má með því að 15-20 þúsund Íslendingar verða staddir að hlutfall atkvæða utan kjörfundar í ár verði aftur nokkuð hátt. Síðasti leikur Íslands í riðlakeppninni er þó 22. júní og því verður stór hluti að öllum líkindum kominn til landsins 25. júní.
Fróðlegt verður að sjá hvernig fram vindur en leikar gætu farið að æsast en fyrstu kappræður forsetaefna í sjónvarpi verða í opinni dagskrá á Stöð 2 strax að loknum fréttum. Kappræðurnar verða einnig í beinni útsendingu á Vísi, strax að loknum kvöldfréttum.