Íslenski boltinn

Jónas Guðni spilar með litla bróður næsta sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jónas Guðni Sævarsson í leik með KR síðasta sumar.
Jónas Guðni Sævarsson í leik með KR síðasta sumar. Vísir/Andri Marinó
Jónas Guðni Sævarsson er kominn heim því þessi 32 ára miðjumaður hefur ákveðið að spila með Keflvíkingum í 1. deildinni í fótbolta næsta sumar.

Jónas Guðni hefur gert tveggja ára samning við Keflavík en liðið féll úr Pepsi-deildinni í haust. Þetta kemur fram á Víkurfréttum.

„Nonni Ben formaður hringdi í mig og sagði, „Nú þarft þú að koma heim, við þurfum á þér að halda.“ Það kveikti í mér og vakti upp Keflvíkinginn í mér. Svo hringdi pabbi líka í mig og sagði, „Jónas, það vilja allir að þú komir heim. Þannig að ég er að koma heim,“ sagði Jónas Guðni í viðtali við Víkurfréttir í dag.

Jónas Guðni lék síðast með Keflavíkurliðinu sumarið 2007 en árið eftir fór hann í KR. Jónas Guðni var í KR næstu tvö árin og svo undanfarin þrjú tímabil eftir að hann snéri heim úr atvinnumennsku í Svíþjóð. Það hafði áður komið fram að Jónas Guðni væri hættur hjá KR og vitað var að mörg félög höfðu áhuga á að fá hann til sín.

Jónas Guðni valdi hinsvegar að spila næstu tvö tímabil með sínu uppeldisfélagi. Þetta þýðir að Jónas Guðni mun spila með yngsta bróður sínum næsta sumar en Fannar Orri Sævarsson steig sín fyrstu skref með meistaraflokknum á nýloknu tímabili. „Hann á töff tíma framundan. Þetta verður erfitt fyrir hann á æfingum því ég mun láta hann finna fyrir því,“ segir Jónas í fyrrnefndu viðtali við Víkurfréttir.

Jónas Guðni lék á sínum tíma 79 leiki með Keflavík í efstu deild en hann var í stóru hlutverki þegar liðið vann sér síðast sæti í efstu deild sumarið 2003.


Tengdar fréttir

Jónas Guðni farinn frá KR

KR og miðjumaðurinn Jónas Guðni Sævarsson hafa komist að samkomulagi um starfslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×