Skoðun

Glötuð tækifæri í fjárlögum

Árni Páll Árnason skrifar
Ný fjárlög sýna að fórnirnar sem við færðum á síðasta kjörtímabili eru að skila þeim árangri að ríkisreksturinn skilar myndarlegum afgangi. Hann væri enn meiri ef ríkisstjórnin hefði ekki sett afslátt af auðlindagjöldum í forgang.

En það er sárt að sjá að þeir sem færðu fórnirnar fá ekki ávinninginn af viðsnúningnum. Skilaboðin til barnafjölskyldna í fjárlagafrumvarpinu eru einföld: Haldið áfram að flytja burt af landinu. Hækkandi laun valda því að grimmar tekjuskerðingar og tekjuviðmið í barnabóta-, vaxtabóta-, fæðingarorlofs- og húsaleigubótakerfi skilja fleiri og fleiri fjölskyldur á meðaltekjum eftir án nokkurs stuðnings af hálfu hins opinbera. Útgreiddar vaxtabætur munu lækka um hvorki meira né minna en 1.500 milljónir. Þessum stuðningskerfum var í upphafi ætlað að jafna aðstöðu þorra fólks eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, en þau eru nú að breytast í láglaunabætur. Nú hefði verið kjörið að nýta svigrúm til að rýmka þessi skerðingarmörk í stað þess að láta þau óhreyfð. Það þarf líka að bæta í framlög til húsnæðismála.

Ný framlög til leiguíbúða leysa ekki húsnæðisvandann og það er athyglisvert að þau eru einungis jafnhá og það sem ríkið sparar sér með því að ryðja meðaltekjufólki út úr vaxtabótakerfinu. Framlögin eru því í raun tilflutningur á peningum en ekki aukning til húsnæðismála.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram frumvarp til að tryggja að aldraðir og örorkulífeyrisþegar njóti umsaminna lágmarkslauna upp á 300.000 krónur. Það er ekki sæmandi að ætla öldruðum og þeim sem geta ekki unnið fyrir sér að lifa á lægri framfærslu en almennt er viðurkennt að sé lágmarksviðmið.

Það er gott að fella niður tolla á fötum og skóm, en óskiljanlegt að ríkisstjórnin rembist áfram við að halda matarverði háu með ofurtollum á matvæli. Best hefði verið að nýta allt svigrúm til skattalækkana til að lækka tryggingagjaldið: Styðja þannig við nýsköpun og þekkingu og auðvelda fyrirtækjunum að hækka laun.




Skoðun

Sjá meira


×