Erlent

Bernie Sanders hefur lykilfylki í greipum sínum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér ávarpar Bernie Sanders stuðningsmenn sína í Iowa á föstudag.
Hér ávarpar Bernie Sanders stuðningsmenn sína í Iowa á föstudag. Vísir/epa
Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders hefur nú um 9 prósentustiga forskot á Hillary Clinton í baráttunni um útnefningu demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar vestanhafs á næsta ári.

Skoðanakönnunin var framkvæmd af sjónvarpstöðinni NBC á dögunum og voru niðurstöður hennar kynntar í dag. Þær gefa til kynna að 41 prósent demókrata í New Hampshire, sem löngum hefur verið talið lykilfylki í baráttunni um forsetaembættið, treysti Sanders fyrir útnefningu flokksins en 31 prósent hafa í hyggju að kjósa utanríkisráðherrann fyrrverandi.

Afstaða demókrata í fylkinu til Joe Biden var einnig könnuð en um 16 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa varaforsetann bjóði hann sig fram. Hann segist þó ekki vera búinn að ákveða hvort hann treysti sér í framboð í kjölfar andlát sonar hans, Beau Biden, í maí síðastliðnum.

Ekki eru nema um tveir mánuðir síðan að Hillary Clinton hafði ríflega 10 prósentustiga forskot á Sanders í fylkinu en umræðan um lekann á tölvupóstum úr ráðherratíð Clinton hefur verið fyrirferðamikil síðan þá. Líklegt má teljast að hún hafi tekið sinn toll á vinsældum Clinton. Þá nýtur Sanders, sem er frá nágrannafylkinu Vermont, síaukinna vinsælda meðal ungs fólks og verkalýðsins.

Kosningarnar í New Hampshire munu fara fram í janúar.


Tengdar fréttir

Sjö þúsund blaðsíður tölvuskeyta birtar

Nýjasti skammturinn af tölvupóstum Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var birtur í gær á vefsíðu bandaríska utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×