Viðskipti innlent

Vænta óbreyttra stýrivaxta þar til kjaraviðræður skýrast

ingvar haraldsson skrifar
Höfuðstöðvar Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg.
Höfuðstöðvar Seðlabanka Íslands við Kalkofnsveg. vísir/gva
„Við spáum að peningastefnunefnd Seðlabankans kjósi að halda stýrivöxtum óbreyttum að sinni,“ segir í Markaðspunkti Greiningardeildar Arion banka en næsti  vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans er þann 13. maí. Greiningardeildin telur ólíklegt að farið verði að hrófla við stýrivöxtum í miðjum kjaraviðræðum.

Greiningardeildin býst þó við því að stýrivextir muni hækka ef launahækkanir í kjarasamningum verða of miklar. „Öll rök hníga þannig að því að halda stýrivöxtum óbreyttum í bili en ef kjarasamningar fela í sér launahækkanir umfram það sem verðbólgumarkmið Seðlabankans leyfir er ljóst að stýrivaxtahækkana er að vænta með haustinu,“ segir í greiningunni.

Arion banki telur að slakinn í hagkerfinu sé að hverfa sem þýði að landsframleiðsla sé að nálgast framleiðslugetu þjóðarbúsins. Vinnustundum hafi fjölgað hratt og kortavelta aukist um 3,6 prósent á fyrsta ársfjórðungi sem bendi til vaxtar einkaneyslu. Því sé hærri verðbólgu að vænta á næstunni.  „Á heildina litið miðað við stöðuna í hagkerfinu og þá gefnu forsendu að kjarasamningar klárist á sumarmánuðum er nokkuð ljóst að verðbólgan fari hratt hækkandi þegar líður á árið,“ segir í greiningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×