Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segist hafa selt íbúð sína við Ránargötu í Reykjavík í lok maí árið 2013. Vísir greindi frá því um helgina að kaupin hafi samkvæmt fasteignaskrá átt sér stað í júlí á síðasta ári en að afhending eignarinnar hafi átt sér stað tæpum sjö mánuðum fyrr.
Kaupsamningnum ekki þinglýst
„Dagsetning kaupsamnings er 30. maí 2013 og afhending í lok árs 2013,“ segir í skriflegu svari Illuga við fyrirspurn fréttastofu. Kaupsamningnum var ekki þinglýst samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu en afsal eignarinnar var þinglýst í júlí á síðasta ári, tæpu ári eftir kaupin.
Sjá einnig: Borgar 230 þúsund krónur í leigu á mánuði
Það eru einu opinberu gögnin sem liggja fyrir um viðskiptin auk upplýsinga úr ársreikningi félagsins sem keypti eignina. Það félag er í eigu Hauks Harðarsonar, stjórnarformanns Orku Energy. Félagið var áður í eigu Illuga en í ársreikningi vegna 2013 kemur fram að Haukur eigi 100 prósent hlutafjár í félaginu.
Tók yfir tryggingarbréf
Á Facebook-síðu sinni í dag sagði Illugi að íbúðin hefði verið seld fyrir 53,5 milljónir króna. Samkvæmt afsali eignarinnar tók félag Hauks hins vegar yfir 55 milljóna króna skuldir með eigninni.
Aðspurður um mismuninn á þessum upphæðum segir Illugi í svarinu: „Á söludegi eignarinnar voru tvö skuldabréf áhvílandi samtals að fjárhæð 34,5 milljón auk þess var tryggingarbréf áhvílandi á 3ja veðrétti sem endurspelgar ekki stöðu undirliggjandi skuldar á söludegi.“
Haukur ekki innlendur aðili
Fréttastofa óskaði einnig eftir skýringum á ummælum Illuga á Alþingi 13. apríl síðastliðinn þar sem hann sagði að engir íslenskir aðilar ættu í Orku Energy.
„Ég sagði það hér áðan, það er enginn íslenskur aðili sem á þessi fyrirtæki, þetta eru allt aðilar sem eru annaðhvort búsettir erlendis eða eru erlendir aðilar, reyndar á þessum tíma er þetta í meirihlutaeign erlendra aðila,“ sagði ráðherrann í þinginu. Fyrir liggur hins vegar að Haukur Harðarson eigi í fyrirtækinu.
Aðspurður um þetta atriði segir Illugi að Haukur búi og starfi erlendis. Samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá er Haukur skráður í Víetnam.
