Framsóknarflokkurinn vill að lögreglu verði veitt forvirkar rannsóknarheimildir verði drög að ályktunum flokksþings Framsóknar samþykkt. Flokksþing Framsóknarflokksins fer fram um helgina.
Í drögum að ályktunum flokksþingsins, sem birt voru á heimasíðu flokksins í dag, segir að „til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi, „s.s. innflutningi fíkniefna, mansali, hryðjuverkum og auknum umsvifum skipulagðra glæpagengja, skal veita lögreglunni forvirkar rannsóknarheimildir sambærilegar þeim sem lögregla í öðrum norrænum ríkjum hefur.“
Með forvirkum rannsóknarheimildum fær lögregla rýmri heimild til að rannsaka hugsanlegt eða ætlað brot í þeim tilgangi að koma í veg fyrir það.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra greindi frá því í febrúar síðastliðinn að hún telji rétt að skoða hvort veita eigi lögreglunni forvirkar rannsóknarheimildir, meðal annars til að koma í veg fyrir að alþjóðleg glæpa- eða hryðjuverkasamtök nái fótfestu hér á landi.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í lok febrúarmánaðar sagði hún að ekki væri unnið að gerð frumvarps um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu og að engin áform væru uppi um gerð slíks frumvarps.
Þá nefndi ráðherra að í innanríkisráðuneytinu væri unnið að gerð skýrslu um innanríkis- og öryggismál sem væri ætlað að verða grunnur að frekari umræðu um þessi mál.

