Klukkan 15:30 hefst svo sérstök umræða um ívilnunarsamning við Matorku en málshefjandi er Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. Til andsvara er Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Matorka hyggur á stórfellt bleikjueldi á Reykjanesi og er hljóðar ívilnunarsamningur þess við ríkið upp á 450 milljónir króna samkvæmt Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þá hefur fyrirtækið einnig óskað eftir 52 milljónum í þjálfunarstyrki.
Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu verður fyrirtækið ekki styrkt meira en nemur 35 prósentum af heildarfjárfestingu, sem er undir leyfilegu hámarki samkvæmt EES reglum.
Landsamband fiskeldisstöðva er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt ívilnunarsamninginn. Segir sambandið að hann skekki samkeppnisstöðu í bleikjueldi á Íslandi þar sem önnur fyrirtæki hafi ekki notið stuðnings frá hinu opinbera.