Skoðun

Ég hvet þig til að kjósa

Dagur B. Eggertsson skrifar
Skemmtilegri – en nokkuð rólegri kosningabaráttu er að ljúka. Í dag er kjördagur. Umræðan hefur einkennst af því að Reykjavík stendur að mörgu leyti vel. Það hefur verið kærkomin ró yfir stjórn borgarinnar á liðnu kjörtímabili. Ég er stoltur af því að við leystum farsællega úr afleitri stöðu Orkuveitunnar, atvinnuleysi hefur minnkað hratt og við höfum komið fjármálum borgarinnar á lygnan sjó.

Við höfum sparað, sýnt ábyrgð og tryggt stöðugleika við stjórn borgarinnar. Við höfum tekið sundlaugarnar okkar í gegn og lýðheilsumálin fastari tökum. Hjólreiðar og útivist eru að eflast og mun fleiri borgarbúar nýta nú þjónustu Strætó. Hugmyndir borgarbúa hafa fengið að njóta sín eins og sést í framkvæmdum í öllum hverfum. Og framtíðarsýnin sem birtist í nýju aðalskipulagi er mikilvægt leiðarljós til að gera góða borg betri.

Að stjórna borg snýst fyrst og síðast um þetta, að auka lífsgæði borgarbúa í öllu sem við gerum.

Húsnæðismálin eru númer eitt

Næstu ár verða mjög mikilvæg. Leigumarkaðurinn er í ólestri og við þurfum að hefja byggingu 2.500-3.000 nýrra leigu- og búseturéttaríbúða á næstu þremur til fimm árum. Því vil ég koma í verk í góðu samstarfi við reynslumikla aðila eins og Búseta, Félagsstofnun stúdenta, verkalýðshreyfinguna og Félagsbústaði. Við þurfum að bæta kjör barnafjölskyldna og horfa á það sem skiptir þær mestu máli, aðbúnað barnanna okkar og menntun í skólum, leikskólum og frístundastarfi.

Við þurfum að stuðla að jöfnum tækifærum allra Reykvíkinga, fatlaðra og ófatlaðra, hinna eldri og hinna yngri, innfæddra sem aðfluttra í öllum hverfum og um alla borg. Reykjavík á að vera lífsgæðaborg fyrir alla, eða eins og Jón Gnarr orðaði það svo fallega: Alls konar borg, fyrir alls konar fólk.

Ég hvet alla til að mæta á kjörstað. Ég mun gera mitt allra besta til að standa undir trausti borgarbúa fái ég umboð til að leiða stjórn borgarinnar næsta kjörtímabil.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×