Skoðun

Flugið

Sigurður Hreinsson skrifar
Eitt af mikilvægustu byggðarmálum okkar Vestfirðinga eru samgöngumál. En mér finnst stundum að á sama tíma og við erum upptekin af úrbótum í vegamálum, þá sé nánast ekkert hugsað um flugmál.

Á engum flugvelli á Íslandi eru jafn miklar líkur á að flug frestist eða falli niður, eins og staðreyndin er með Ísafjarðarflugvöll. 100 til 150 flug árlega eru tölur sem sjást iðulega og ekkert bendir til þess að þessar tölur fari neitt lækkandi.

Ef við setjum þessar tölur í samhengi, þá eru við að tala um 50-80 daga árlega, miðað við núverandi flugtíðni áætlanaflugs. Síðustu árin áður en Vestfjarðagöngin voru tekin í notkun, var að meðaltali ófært í um 53 daga um Breiðadals- og Botnsheiðar, árlega.

Það er fyrir löngu orðið tímabært að krefjast alvöruúrbóta í flugmálum á Vestfjörðum. Við verðum að fá alvöruflugvöll, sem stenst kröfur um blindflug, hindrunarlítið aðflug, er brúkhæfur í öllum vindáttum og mætir kröfum um millilandaflug. Án frekari tafa verður að hefja vinnu við staðarval á nýjum flugvelli með nauðsynlegum rannsóknum. Við erum ekki að biðja um neitt meira en t.d. Akureyri og Egilsstaðir eru með, bara að fá að standa jafnfætis þeim. Þessi krafa er að mínu mati eitt af stærstu byggðar- og atvinnumálum Vestfjarða.

Í austanverðum Eyjafirði, á móts við Akureyri, standa nú yfir framkvæmdir við jarðgöng undir Vaðlaheiði. Göngunum er ætlað að koma í staðinn fyrir 325 metra háan fjallveg sem er samkvæmt skýrslu Vegagerðarinnar ófær að meðaltali tvo daga á ári og styttir leiðina um 15 km. Framkvæmdin er sögð í einkaframkvæmd en ábyrgðaraðili er íslenska ríkið, heildarkostnaður er talinn verða 11,5 milljarðar.

Er til of mikils mælst að fara fram á að landsfeðurnir sýni börnum sínum sanngirni. Ég þori.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×