Sigurður Ingi Þórðarson, betur þekktur sem Siggi hakkari, hefur verið dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Stærsti hluti ákærunnar sneri að fjársvikum en dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.
Click here for an English version
Sigurður játaði sök í átján ákæruliðum við fyrirtöku málsins á dögunum en undirliðir í ákærunum skipta tugum. Hann hafði áður neitað sök við þingfestingu málsins en skipti svo um skoðun. Brot Sigurðar voru talin nema rúmlega 30 milljónum króna en ákæran sneri að fjársvium, fjárdrætti og þjófnaði.
Sigurður var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í morgun en lögmaður hans, Vilhjálmur Vilhjálmsson, staðfesti í samtali við fréttastofu að umbjóðandi hans uni dómnum. Það sé sömuleiðis hans skilningur að ríkissaksóknari uni dómnum.
Dóminn í heild sinni má lesa hér.
Ríkissaksóknari rannsakar kynferðisbrot
Ríkissaksóknari hefur til meðferðar ellefu kynferðisbrotamál gegn gegn ellefu brotaþolum þar sem Sigurður hefur stöðu sakbornings. Ætluð brot voru framin á árunum 2010 til loka árs 2013. Var Sigurður úrskurðaður í gæsluvarðhald í nóvember vegna rannsóknarinnar.
Sigurður var dæmdur í átta mánaða fangelsi í febrúar síðastliðnum fyrir kynferðisbrot gegn 17 ára dreng. Tældi Sigurður drenginn til kynferðismaka. Afplánun Sigurðar lauk þann 2. nóvember og síðan hefur Sigurður setið í gæsluvarðhaldi. Nú hefur hann hins vegar afplánun í kjölfar dómsins sem féll í dag.
Sakhæfur en siðblindur
Í greinagerðinni sem fylgdi gæsluvarðhaldsbeiðninni kom fram að nokkur hinna ætluðu kynferðisbrota sem ríkissaksóknari hafi til rannsóknar hafi verið framin eftir að Sigurður var ákærður fyrir kynferðisbrot, þ.e. þann dóm sem hann nýlega afplánaði. Það bendi til einbeitts brotavilja að mati lögreglu.
Það var mat geðlæknis að Sigurður væri sakhæfur en siðblindur. Hann uppfylli örugglega skilmerki fyrir persónuleikaröskun af andfélagslegri gerð. Hann þekki mun á réttu og röngu en missi sig verði hann fyrir vonbrigðum.
Vandi hans felist í hömluleysi og erfiðleikum við að fresta fullnægingu þarfa. Þá iðrist hann ekki gerða sinna og geti ekki sýnt merki djúprar sektarkenndar. Kærði sé með persónuleikaveilu.
Aðstoðaði Assange
Sigurður byrjaði að hakka tölvur í kringum tólf ára aldur og starfaði síðar með Julian Assange og félögum í Wikileaks. Samvinna þeirra Assange lauk þó ekki á góðu nótunum þar sem Assange sakaði hann um að hafa dregið að sér styrktarfé, á sjöundu milljón króna, sem átti að renna til samtakanna. Var hann meðal annars dæmdur á þeim grundvelli í morgun.