
Ekkert lát er á gosinu í Holuhrauni sem tók að gjósa í lok ágúst. Er það talið svipað til Kröflueldanna sem geisuðu frá 1975-1984. Ekkert bendir til þess að gosið sé í rénun en þegar þetta er skrifað þekur hraunið um 80 ferkílómetra. Eldgosið hefur vakið gríðarlega athygli, enda sjónarspilið algjört.
Ríkið segir 250 krónur duga fyrir máltíðinni
Það ætlaði allt um koll að keyra þegar gert var ráð fyrir því í frumvarpi fjármálaráðherra um breytingar á virðisaukaskatti að hver máltíð á einstakling kosti 248 krónur. Tölurnar voru byggðar á neyslukönnun Hagstofu Íslands og miðað var við hjón með tvö börn, annað yngra en sjö ára.
Enginn úr MDMA partýinu sagt foreldrunum hvað gerðist
Sá skelfilegi atburður átti sér stað hinn 16.nóvember 2013 að ung stúlka, Eva María Þorvarðardóttir, lést í partýi í vesturbæ Reykjavíkur. Banamein hennar var of stór skammtur af eiturlyfinu MDMA, eða Mollý. Eva María var hraust íþróttakona og kom dauðsfallið fjölskyldu hennar og vinum í opna skjöldu. Aðdragandinn var enginn. Foreldrar Evu Maríu sögðu sögu hennar í fréttaskýringaþættinum Brestum. Enginn hafði sagt þeim hvað gengið hefði á þessa örlagaríku nótt.
Íslenskur farþegi lagaði bilaðan þotuhreyfil
Útlit var fyrir að mikil töf yrði á flugi Primera Air frá Almería á Spáni til Íslands vegna bilunar í þotuhreyfli. Líkur voru á að allir 180 farþegar vélarinnar þyrftu að fara á hótel þar sem engan flugvirkja var að finna, en sá var staddur í Svíþjóð. Stór hópur Íslendinga var í vélinni en svo heppilega vildi til að einn úr hópnum er flugvirki að mennt. Það var Davíð Aron Guðnason sem gaf sig fram, sýndi fram á réttindi sín og lagaði vélina á örskotsstundu. Því var tafðist ferðalagði ekki um nema eina klukkustund. Málið vakti ekki einungis athygli á Íslandi heldur einnig ytra. Fréttin rataði víðs vegar um Evrópu, meðal annars í þýska dagblaðið Bild.

Sjúkraflugvél TF-MYX brotlendi á akstursíþróttabraut við Hlíðarfjallsveg á Akureyri hinn 5. ágúst 2013. Tveir létust í flugslysinu. Ísland í dag fjallaði ítarlega um málið og fór ofan í saumana á rannsókn málsins. Málið er afar viðkvæmt og haft var samband við aðstandendur áður en myndbandið var birt. Rannsókn málsins er ekki lokið.
Gísli Freyr játar – Hanna Birna hættir
Lekamálið, lekamálið, lekamálið. Fátt hefur borið jafn oft á góma og lekamálið sem náði hámæli um mitt ár og allt fram til þess að Gísli Freyr játaði að hafa lekið trúnaðargögnum úr innanríkisráðuneytinu til fjölmiðla. Gísli Freyr var í kjölfarið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hanna Birna sagði af sér embætti innanríkisráðherra og Ólöf Nordal tók við.

Mikill eldur logaði í Skeifunni 11 hinn 6.júlí. Húsnæðið gjöreyðilagðist og gríðarlegt tjón hlaust af eldinum. Fleiri hundruð manns söfnuðust saman og fylgdust með störfum slökkviliðs og fór svo að lögregla þurfti að girða af svæðið svo slökkviliðið gæti sinnt störfum sínum. Hættuleg efni voru í lofti og töluverð hætta skapaðist og var hættuástandi lýst yfir um tíma. Viðstöddum brá heldur í brún þegar karlmaður í stuttbuxum kom aðvífandi og aðstoðaði slökkviliðsmenn. Um var að ræða slökkviliðsmann á bakvakt en hann var af mörgum kallaður „stuttbuxnahetjan“ í kjölfarið.
Þessi listi er langt frá því að vera tæmandi og sýnir einungis brotabrot af fréttum sem vöktu athygli á Vísi í ár, en í fréttalistanum má sjá enn fleiri vinsælar fréttir.
Vísir vill nýta tækifærið og þakka lesendum sínum fyrir árið sem er að líða og hlakkar til komandi tíma.