Oddviti Langanesbyggðar hefur fulla trúa á því að risahöfn við Finnafjörð verði að veruleika eftir að eitt stærsta hafnafyrirtæki Evrópu, Bremenports, ritaði undir samstarfssamning um að kosta mörghundruð milljóna króna undirbúningsvinnu.
Þeir þóttu sennilega nokkuð bjartsýnir sveitarstjórnarmennirnir sem fyrir áratug settu stórskipahöfn í Gunnólfsvík fyrst inn á aðalskipulag. Með þessari undirritun í Ráðherrabústaðnum á þriðjudag varð hins vegar ljóst að mönnum er full alvara að láta þessi áform rætast, samnings milli Bremenports, Langanesbyggðar og Vopnafjarðar og verkfræðistofunnar Eflu, að viðstöddum bæði forsætisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Samningurinn þýðir að þýska fyrirtækið ætlar á næstu þremur til fimm árum að ráðast í undirbúningsvinnu með það í huga að hægt verði að hefja framkvæmdir jafnvel árið 2018.

„Þetta er mjög stór áfangi í því að Ísland nýti þessi risastóru tækifæri sem felast í legu landsins og þróuninni á Norðurslóðum,” sagði Sigmundur Davíð Gunnaugsson forsætisráðherra. “Þetta er eitthvað sem mun hafa áhrif allt frá Eyjafirði að suðurfjörðum Austfjarða, bein áhrif, en til lengri tíma litið auðvitað mikil áhrif fyrir landið allt,” sagði forsætisráðherra.
Þýska fyrirtækið Bremenports áformar að leggja nokkur hundruð milljónir króna í rannsóknirnar. Það á og rekur fjórðu stærstu höfn Evrópu. Siggeir Stefánsson, oddviti Langanesbyggðar, segir að þeir séu sérfræðingar í þessum málum og hafi í mörg ár verið að skoða heiminn og samhengi hlutanna. Þeirra niðurstaða sé að Íslands sé áhugaverðasti staðurinn til að skoða til hlýtar.

Þjóðverjarnir segjast raunar sannfærðir um Ísland sé í lykilstöðu. Robert Howe, framkvæmdastjóri Bremenports, segir að ný siglingaleið, norðausturleiðin, og - á næstu 10-20 árum, - leiðin yfir pólinn, muni hafa áhrif á Íslandi.
„Það þýðir að einmitt hérna á norðausturhluta Íslands er mikilvægt og nauðsynlegt að koma upp nýrri höfn,” segir framkvæmdastjóri Bremenports.

Þegar oddviti Langanesbyggðar var spurður hvort hann hefði trú á því að þessi áform yrðu að veruleika svaraði hann:
„Já, ég hef trú á því. Þetta er allavegana þess virði að skoða til hlýtar og ég hef trú á því að þetta geti orðið. Það eru allavega allar aðstæður og umhverfi til að svo geti orðið,” sagði Siggeir Stefánsson.