Það fór ekkert allt of vel ofan í danska handboltaspekinga að Danir skildu þurfa að leita til Íslands eftir nýjum þjálfara.
Nokkrir stuðningsmenn Íslands í Herning í kvöld hafa því ákveðið að heiðra Guðmund í Boxinu í kvöld og um leið stríða Dönum svolítið. Þeir eru nefnilega mættir í Boxið með stóran og mikinn borða í farteskinu.
Á borðanum, sem verður notaður á leiknum á eftir, er mynd af Guðmundi og danski fáninn í baksýn. Á honum stendur: "The Chosen One, Made In Iceland" eða "Sá útvaldi, framleiddur á Íslandi."
Verður áhugavert að sjá hvaða viðtökur þessi borði fær hjá 14 þúsund dönskum stuðningsmönnum í kvöld. Því miður verður Guðmundur sjálfur ekki á svæðinu en hann kemur ekki til Herning fyrr en á föstudag.
