Skoðun

Gleðilega hátíð!

Sóley Tómasdóttir skrifar
Hinsegin dagar hefjast í dag. Hápunktur þeirra verður gleðigangan á laugardag. Þá fögnum við því að fólk er svona, hinsegin og þannig, allskonar, þessháttar, einstakt og meiriháttar. Þá fögnum við líka viðhorfsbreytingu í samfélaginu og sjálfsögðum mannréttindum samkynhneigðs, tvíkynhneigðs og transgender fólks.

Breytingarnar áttu sér ekki stað í gamla daga og þær komu ekki af sjálfu sér. Þvert á móti hafa þær verið að eiga sér stað á undanförnum mánuðum, misserum, árum og áratugum. Heiðurinn af breytingunum á að fara óskiptur til þess hugrakka og sterka fólks sem gegnum tíðina hefur verið það sjálft, talað upphátt, staðið á sínu og hvert með öðru. Fólkið sem þoldi mótlæti og óþverraskap í daglegu lífi, bæði frá ókunnugum og nákomnum, fyrir það eitt að vera það sjálft. Fólkið sem upplýsti og sannfærði samfélagið um mikilvægi sjálfsagðra mannréttinda.

Um leið og við Íslendingar megum vera stolt og glöð yfir okkar fjölbreytta samfélagi verðum við að halda áfram. Við verðum að vinna í þeim úreltu viðhorfum sem enn fyrirfinnast í menningunni okkar. Við verðum að brjóta upp staðalmyndir um hefðbundin kynhlutverk, um áhugamál stelpna og stráka, um útlit, kynhegðun og allt hitt sem við ýmist eigum eða eigum ekki að tileinka okkur til að falla í hópinn.

Hinsegin dagar eiga að vera okkur hvatning til að breyta alla hina daga ársins. Reykjavíkurborg getur lagt enn ríkari áherslu á að efla sjálfstæði og gagnrýna hugsun hjá börnum og unglingum, hún getur lagt ríkari áherslu á jöfn tækifæri sem vinnuveitandi og hún getur tryggt fordómalausa og góða þjónustu við alla borgarbúa. Þannig á það að vera og sem borgarfulltrúi heiti ég að beita mér fyrir því.

Í stað þess að eltast við úr sér gengnar staðalmyndir um hvítar gagnkynhneigðar vísitölufjölskyldur sem hámark hamingjunnar skulum við gleðjast yfir fjölbreytileikanum. Takmarkið hlýtur að vera hamingja, sátt og samlyndi, að fólk megi vera eins og það vill og með þeim sem það vill – að það virði og skilji þarfir og mörk hvers annars og njóti þess að vera til.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×