Skoðun

Sveigjanlegar forsendur fyrir sanngirni

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Kveðið hefur verið upp úr með það að almenn niðurfærsla allra húsnæðisskulda eigi að bæta rýrnun sem orðið hafi á eignarhlut í íbúðarhúsnæði vegna hækkunar skulda og lækkunar á íbúðaverði frá 2008. Svo mikil hafi röskunin orðið að forsendur hafi brostið og réttur skapast á bótum fyrir atbeina ríkisvaldsins.

Þarna er augljóst ósamræmi milli vandans og lausnarinnar. Eignarhluti ræðst bæði af íbúðarverðinu og skuldinni. Þess vegna þarf bæði að líta á skuldina til þess að ákveða hvort forsendur hafi í raun brostið og athuga þróunina á verði íbúðarinnar frá kaupdegi. Með því að einblína á skuldina verður háum fjárhæðum varið til niðurfærslu skuldar hjá mörgum íbúðareigendum sem engu hafa tapað af sínum eignarhlut. Um 30% heimilanna eiga meira en 30 m.kr. í eigið fé hvert, en bera samtals tæplega helming allra skuldanna. Þessi hópur mun fá úr ríkissjóði allt að 70 milljörðum króna í hreint gjafafé.

Árin 2008-2010 hækkuðu lánin um 30% og verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 15%. Þetta er forsendubresturinn svonefndi. En árin 2004-2007 varð þróunin á annan veg. Þá hækkaði íbúðaverð um 92% og neysluverðsvísitalan aðeins um 22%. Þetta er í raun jafnmikil forsendubreyting. Önnur bjó til eignarhluta og hin minnkaði hann. Þegar litið er til þróunarinnar frá 2000-2012 hefur verðþróunin búið til eign, íbúðaverð hefur hækkað um 150% en skuldir um 98%.

Vegna þess hvernig verðþróunin hefur verið undanfarin ár mun almenn lækkun skulda dreifast þannig að þeir íbúðareigendur fá mesta lækkun skulda sem keyptu stórt og hafa notið mestrar hækkunar á verði íbúðar sinnar. Margir þeirra hafa engu tapað og niðurfærslan yrði þeim hreinn gróði. Þeir íbúðareigendur sem keyptu seint á þensluárunum og skömmu fyrir hrun munu fá minnst, m.a. af því að þeir hafa þegar fengið lækkun skulda vegna 110% leiðarinnar. Forsendubrestur annarra, svo sem þeirra tugþúsunda sem hafa misst atvinnuna eða hafa mátt þola sérstaka skerðingu á tekjum sínum eins og ellilífeyrisþegar, er léttvægur fundinn og til einskis metinn.

Tugþúsundir heimila aldraðra og leigjenda í brýnni þörf eru sniðgengnar. Sanngirnin á sér greinilega sveigjanlegar forsendur.




Skoðun

Sjá meira


×