Skoðun

Það skiptir máli hverja við kjósum

Helga Vala Helgadóttir skrifar
Það skiptir máli hvernig við kjósum. Við kjósum ekki bara flokka, heldur erum við að koma fólkinu af listum flokkanna inn á þing, í vinnu fyrir okkur. Ef ég fengi að ráða myndi ég óska eftir persónukjöri, svo ég gæti ráðið gott flokk úr öllum flokkum í vinnu hjá mér. En það er ekki í boði og því verðum við að muna að það skiptir máli hvaða flokka við kjósum.

Skúli Helgason er einn þeirra sem dettur út af þingi ef útkoman verður eins og kannanir dagsins sýna. Skúli skipar þriðja sæti á lista Samfylkingar í Reykjavík norður. Skúli leiddi á þinginu vinnuna um græna hagkerfið, lagði fram þingsályktun um eflingu íslenskrar tónlistar, hann talar fyrir nýrri atvinnustefnu, er baráttumaður fyrir þjóðareign auðlinda, nýrri stjórnarskrá, breyttu fiskveiðistjórnunarkerfi og bættri meðferð kynferðisbrotamála svo eitthvað sé nefnt.

Skúli er einn þeirra þingmanna sem þingmenn annarra flokka tala vel um, vegna þess að hann er sáttasemjari - maður sem getur leitt ólík öfl saman. Það væri ferlegt ef við misstum hann út af þingi og þess vegna verður Samfylkingin að ná þremur þingmönnum inn í Reykjavík norður. Höfum þetta í huga á morgun þegar við göngum til kosninga. Það skiptir máli hvernig við kjósum því þegar upp er staðið erum við að ráða einstaklinga í vinnu hjá okkur!




Skoðun

Sjá meira


×