Skoðun

Háskalegur blekkingarleikur

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Um árabil hefur verið stundaður háskalegur blekkingarleikur um áhrif verðtryggingar á lánum. Áróðurinn hefur aukist eftir bankahrunið 2008. Því er haldið fram að lánin hafi stökkbreyst vegna verðtryggingarinnar. Boðað er að lausnin felist í óverðtryggðum lánum. Þá geti lántakendur verið rólegir þrátt fyrir verðbólgu því að höfuðstóll lánanna muni ekki hækka. Til vara er lagt til að setja hámark á verðtrygginguna þannig að verðbólga umfram það verði lántakandanum að kostnaðarlausu. Þarna er alvarleg blekking á ferðinni. Lántakendur eru látnir halda að aðgerðin lækki vaxtakostnaðinn, en staðreyndin er að þeir yrðu að mestu leyti verr staddir en áður ef þessi málflutningur næði fram að ganga.

Ýmsar skýrslur á undanförunum árum, þar með Seðlabanka Íslands, staðfesta að óverðtryggðir vextir eru að jafnaði hærri en verðtryggðir. Askar Capital telur í skýrslu frá mars 2010, sem unnin var fyrir efnahagsráðuneytið, að ætla megi að vaxtastig yrði hærra ef verðtryggingar nyti ekki við. Afnám verðtryggingar á lánum myndi því ekki lækka vaxtakostnað lántakenda, heldur er líklegast að vextirnir yrðu hærri. Sú tillaga að setja þak á verðbætur verðtryggðra lána er villuljós, þar sem þá myndu vextirnir ofan á verðtrygginguna hækka. Það lánar enginn peninga með tapi og þess yrði gætt að vextir og verðtrygging samanlagt yrðu fyrir ofan verðbólguna hverju sinni, rétt eins og gert er í óverðtryggðum lánum.

Í verðtryggðum lánum er áföllnum verðbótum á hverjum gjalddaga dreift á eftirstöðvar af lánstímanum og aðeins hluti þeirra kemur til greiðslu. Ef svokölluð stökkbreytt lán hefðu verið óverðtryggð þegar hrunið varð, hefði hver greiðsla orðið óviðráðanlega há og tugþúsundir hefðu líkast til ekki getað staðið í skilum. En vegna greiðsludreifingarinnar verður skuldin viðráðanleg. Munurinn á verðtryggðum og óverðtryggðum lánum er aðeins hvenær vextirnir og verðbæturnar eru greiddar. Þegar upp er staðið er kostnaðurinn svipaður, þó heldur meiri í óverðtryggðum lánum. Eigi húsnæðislán að vera eingöngu óverðtryggð yrði óhjákvæmilegt að taka upp svipaða greiðsludreifingu á vöxtum og gildir um verðtrygginguna ef ekki á illa að fara. Hvað er þá áunnið með afnámi verðtryggingar? Vandinn liggur í viðvarandi verðbólgu og óábyrgri efnahagsstjórn en ekki í formi vaxtanna. Þeir sem stunda blekkingarleikinn eru vandamál en ekki lausn.




Skoðun

Sjá meira


×