Skoðun

Eva Joly og afkvæmið

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Nú eru bráðum fjögur ár síðan Eva Joly kom til Íslands til að gefa stjórnvöldum ráð um hvernig ganga skyldi milli bols og höfuðs á meintum fjárglæframönnum eftir bankahrun. Strax kom hún galvösk, með bros á vör í viðtal í sjónvarpi og lýsti yfir sekt manna á báða bóga, meira að segja í einstöku dómsmáli.

Í næstu setningu tók hún fram að hún þekkti hvorki haus né sporð á dómsmálinu, en líkindin með öðrum málum sem hún kunni skil á voru augljós, sagði hún.

Spyrillinn kinkaði kolli og gat ekki leynt aðdáun sinni. Síðan hefur hún mætt í sjónvarp af og til, alltaf kinkar spyrillinn kolli af sama ákafa. Hún hefur aldrei fengið erfiða spurningu.

Ég kynntist Evu Joly fyrir mörgum árum. Hún er snaggaraleg, hvatvís og djörf kona, sem á sér ótrúlegt lífshlaup. Með miklu harðfylgi fór hún fyrir rannsóknum mála í Frakklandi sem leiddu til handtöku og dóms yfir sakamönnum sem í marga áratugi höfðu komist upp með spillingu, ofbeldi og fjárglæfra í skjóli illa fengins auðs.

Blóðfórnir

Í þeim slag voru blóðfórnir færðar, fólk var myrt. Gerð var tilraun til að koma Evu sjálfri fyrir kattarnef. Lífverðir gættu hennar dag og nótt. Hún gaf hvergi eftir, fórnaði meira að segja samskiptunum við fjölskyldu sína fyrir málstaðinn. Hún drýgði mikla hetjudáð.

Ég sé hins vegar engin líkindi með því fólki sem Eva Joly fór gegn í Frakklandi og því fólki sem nú situr á sakamannabekk undir ákærum frá sérstökum saksóknara, stærsta saksóknaraembætti í heimi miðað við höfðatölu – skilgetnu afkvæmi Evu Joly.

Ég reikna ekki með hetjudáðum frá afkvæminu. Flestir sakborningarnir eru milli þrítugs og fertugs, vel menntað fólk sem hafði starfað í fjármálaheiminum í örfá ár eftir langt nám. Það taldi sig eiga framtíðina fyrir sér. Ekkert þeirra er grunað um ofbeldi svo ég viti. Það fékk eftirsótt störf í nýlega einkavæddum bönkum, sem hrundu líkt og margir bankar í nálægum löndum.

Í aðdraganda hrunsins lentu lítt reyndir íslenskir bankamenn í erfiðri stöðu. Oft stóðu þeir frammi fyrir eintómum vondum kostum, sem eflaust voru afleiðing af fúski – oftast fúski einhverra allt annarra manna. Stundum virðist saksóknarinn ákæra vegna ákvörðunar sem ákærðu töldu skásta kostinn þegar enginn góður var í boði.

Stóri lærdómurinn af íslensku bankamartröðinni er sá að hér fylltust margir oflæti – embættismenn, stjórnmálamenn, blaðamenn, eftirlitsmenn, lífeyrissjóðir, litlir fjárfestar og stórir fjárfestar. Taka átti bankaheiminn með trompi með sameiginlegu átaki. Þeir sem þykjast kunna skýr skil á upphafi og endi í þeim efnum finnst mér afar ósannfærandi.

Réttarmorð

Mér sýnist hætta á því að fúskið sé að endurtaka sig, en að þessu sinni í dómsölum. Bæta eigi fyrir ósómann með því að ákæra sem flesta og setja þá bak við lás og slá. Engin ástæða er til þess að ætla að góðir saksóknarar verði hristir fram úr erminni frekar en góðir bankamenn. Það á örugglega eftir að koma í ljós – vonandi áður en of mörg réttarmorð verða framin.

Að nefna meintar misgerðir íslenskra bankamanna í sömu andrá og glæpi rótgróinna mafíósa sem Eva Joly fékkst við niðri í Evrópu er fáránlegt. Það væri efni í frábærar skemmtisögur ef ákærurnar kölluðu ekki þá harmleiki yfir fólk sem raun ber vitni.

Fyrir aldarþriðjungi fengum við annan sakamálasérfræðing til Íslands, rannsóknarlögreglumanninn Karl Schütz frá Þýskalandi. Hann var vanur að fást við harðsvíraða glæpamenn líkt og Eva Joly. Á þeim forsendum aðstoðaði hann lögreglu við að binda endahnút á rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmála.

Á þeirri rannsókn byggðust umdeildustu dómar seinni tíma Íslandssögu. Ég veit ekki hvort þeir voru réttir eða rangir. En niðurstöðurnar kalla fram óbragð í munni flestra Íslendinga. Ef við vöndum okkur ekki í þetta sinn gætum við átt von á fleiri slíkum.

Það fer um margan góðan blaðamanninn, fyrrverandi og núverandi, sem nú er á miðjum aldri, þegar minnst er á Guðmundar- og Geirfinnsmál. Þeir vita upp á sig skömmina. Þeir áttu ekki að ganga í lið með refsivaldinu heldur gæta hlutleysis, spyrja spurninga og fá svör en gera minna af því að kinka kolli til yfirvaldsins.

Skárra er að fá engan dóm í sakamáli en vondan.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×