Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Glitnis, hafnaði öllum ákæruatriðum þegar hann gaf skýrslu í Vafningsmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann ásamt Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, eru ákærðir fyrir umboðssvik með lánveitingum til Milestone í gegnum félagið Vafning. Guðmundur sagði fyrir dómi að málið hefði verið unnið eftir hefðundnum leiðum hjá Glitni, og skjalagerðin verið framkvæmd á nokkrum dögum.
Guðmundur gagnrýndi harðlega rannsókn sérstaks saksóknara og sagði að málið væri byggt á röngum forsendum, og algjörlega ónægri rannsókn. Hann sagði að það hefði haft mikil áhrif á sig, aldraðan föður sinn, fjölskyldu og vini, algjörlega að óþörfu.
Fyrr í morgun gaf Lárus Welding skýrslu í málinu. Hann sagði að hann hefði ekki komið nálægt ákvörðunum um umrædda lánveitingu.
Fylgstu með réttarhöldunum á Twitter, á forsíðu Vísis.