Víðavangshlaup ÍR fór fram í dag eins og ávallt á sumardaginn fyrsta en það fór nú fram í 97. sinn.
447 tóku þátt en mótið var um leið Íslandsmeistaramótið í 5 km hlaupi og er það í fyrsta sinn sem sá háttur er hafður á.
Kári Steinn Karlsson úr Breiðabliki kom fyrstur á mark á 14:47 mínútum en hann er nú að undirbúa sig fyrir keppni í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í Lundúnum í sumar. Björn Margeirsson, UMSS, varð annar á 15:42 mínútum og Þorbergur Ingi Jónsson, ÍR, þriðji á 15:45 mínútum.
Í kvennaflokki bar hin unga og efnilega hlaupakona úr ÍR, Aníta Hinriksdóttir, sigur úr býtum. Hún hljóp á 17:36 mínútum en önnur varð Arndís Ýr Hafþórsdóttir á 18:14 mínútum. Fríða Rún Þórðardóttir, ÍR, varð þriðja á 18:56 mínútum.
ÍR fagnaði svo sigri í fimm manna sveitakeppni í bæði karla- og kvennaflokki.
