Skoðun

Árás á lífeyrissjóðina

Lífeyrissjóðirnir eru eignir almennings. Nýlegar árásartillögur ríkisstjórnarinnar að undirlagi fjármálaráðherra eru algjörlega óþolandi og eignaupptaka sem brýtur gegn stjórnarskránni (72. gr). Það er eins og menn haldi að lífeyrissjóðirnir séu bara fullir af peningum sem enginn á og sem enginn notar.

Útgreiðslur úr lífeyrissjóðum eru nú þegar yfirskattlagðarDæmi: Einstaklingur sem býr einn og hefur engar tekjur fær greitt frá Tryggingastofnun 196.000 á mánuði og verða ráðstöfunartekjur hans um 167.000 á mánuði. Ef sami einstaklingur fær greiddar 200.000 úr lífeyrissjóði fær hann 50.000 frá Tryggingastofnun og verða ráðstöfunartekjur hans um 199.000. Hækkun ráðstöfunartekna hans er því aðeins um 32.000, ríkið tekur 168.000 af lífeyrisgreiðslunni eða 84%. Þessum einstaklingi er refsað fyrir ráðdeild og sparnað og ekki gleyma því að hann er búinn að greiða skatta og skyldur til ríkisins alla sína ævi.

Fyrirhuguð skattlagning á lífeyrissjóðina á ekki við um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, þar með talda lífeyrissjóði fjármálaráðherra. Er heimilt að leggja skatta á hluta þjóðarinnar en undanskilja aðra? Í stjórnarskránni stendur að „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum“ (65 gr). Mér sýnist að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin ráðgeri að setja lög sem brjóta gegn stjórnarskránni á fleiri en einn veg og er þess fullviss að slík lagasetning verður viðfangsefni dómstóla.

Þessi ríkisstjórn hefur átt samúð mína í þeim verkefnum sem legið hafa fyrir þó minn flokkur sé ekki þátttakandi í henni, en í þessu máli (og reyndar fleirum) er hún á algjörum villigötum og ætti að falla frá þessum hugmyndum hið bráðasta. Að öðrum kosti mun hún tapa allri samúð og öllum stuðningi frá almenningi. Þessi lagasetning væri árás á allan almenning og ég er þess fullviss að verkalýðshreyfingin mun segja upp kjarasamningum og afleiðingar þess væru ófyrirsjáanlegar.

Þrátt fyrir samúð mína með ríkisstjórninni held ég að nú sé kominn tími fyrir hana að láta af störfum og fyrir ráðherrana að fara á sín ríkistryggðu eftirlaun sem þeir ætla ekki að skattleggja eins og lífeyrissjóði ómerkilegs almennings.




Skoðun

Sjá meira


×