Að veðsetja eigur annarra Þorvaldur Gylfason skrifar 4. ágúst 2011 06:00 Hugsum okkur mann, sem tekur bíl á leigu á mánudagsmorgni. Hann fær bílinn afhentan til leigu í fimm daga og greiðir t.d. 100 þúsund krónur fyrir fram fyrir leiguna til föstudagskvölds, eða 20 þúsund krónur á dag. Það, sem hann hefur í reyndinni keypt, er skírteini, sem veitir honum rétt til að nota bílinn í fimm daga. Skírteinið, það er leiguréttinn, getur maðurinn með leyfi bílaleigunnar framselt til annars manns, sem tekur þá á sig skuldbindingu hins fyrr nefnda, það er skylduna til að skila bílnum óskemmdum í vikulok. Skírteinið er 100 þúsund króna virði á mánudagsmorgninum og 80 þúsund króna virði á þriðjudagsmorgni, því að þá eru aðeins fjórir dagar eftir af leigutímanum. Leigutakinn gæti hugsanlega farið í bankann sinn beint úr bílaleigunni á mánudeginum og tekið lán til fjögurra daga að upphæð 20 þúsund krónur og lagt skírteinið frá bílaleigunni að veði með leyfi bílaleigunnar. Standi lánþeginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, yfirtekur bankinn skírteinið, sem er þá 20 þúsund króna virði og veitir bankanum afnot af bílnum á föstudeginum. Bankinn vill ekki veita hærra lán en 20 þúsund krónur með veði í leiguskírteininu vegna þess, að andvirði þess er komið niður í 20 þúsund krónur á fimmtudeginum. Aðeins óábyrgur eða óheiðarlegur bankastjóri myndi veita 100 þúsund króna lán með veði í leiguskírteininu, því að veðið myndi þá ekki bæta bankanum nema að 1/5 hluta vanskil á láninu. Hugsum okkur nú annan mann í sömu sporum. Hann fer beint í bankann sinn á bílnum, sem er fimm milljóna króna virði, og tekur lán til fjögurra daga að upphæð fimm milljónir króna og 20 þúsund. Hann veðsetur þannig bílinn fyrir fimm milljónir og leiguskírteinið fyrir 20 þúsund. Ef hann stendur í skilum við bankann á fimmtudeginum, hefur hann fengið afnot af fimm milljónum og 20 þúsundum betur í fjóra daga og er að því leyti betur settur en hefði hann tekið aðeins 20 þúsund krónur að láni með skírteinið eitt að veði. Standi hann á hinn bóginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, getur bankinn gengið að manninum og tekið af honum leiguskírteinið, sem er 20 þúsund króna virði. Bankinn getur ekki gengið að bílaleigunni, enda hefði hún aldrei veitt leigutakanum heimild til að veðsetja bílinn. Bankinn tapar því fimm milljónum. Þannig hefur leigutakanum tekizt að ná fimm milljónum króna af bankanum í gegnum bílaleiguna. Ekki bara það. Leigutakinn í dæminu hefur berlega framið umboðssvik í skilningi 249. greinar hegningarlaga, en þar segir: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“ Í þessu felast þau augljósu sannindi, að engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra í leyfisleysi. Þessi einfalda dæmisaga lýsir hugsuninni á bak við auðlindaákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Þar segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.“ Í þessum orðum felst, að skip með kvóta megi veðsetja aðeins upp að því marki, sem nemur verðmæti skipsins sjálfs og veiðiréttarins með leyfi eigandans, það er almannavaldsins í umboði þjóðarinnar. Í frumvarpinu segir einnig: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Hugsum okkur loks útvegsmann, sem kaupir fiskiskip með kvóta, það er réttinn til að veiða 120 tonn af fiski á einu ári eða tíu tonn á mánuði. Hugsum okkur, að skipið sjálft sé 20 milljóna króna virði og aflinn 120 milljóna virði. Taki útgerðarmaðurinn lán í banka til eins árs með veði í skipi og veiðirétti, myndi gætinn bankastjóri ekki lána manninum meira en 20 milljónir. Það stafar af því, að standi lántakandinn ekki í skilum að ári, getur bankinn aðeins tekið yfir skipið, en ekki kvótann, því að hann er uppveiddur eftir árið og einskis virði. Banki, sem lánar manninum 140 milljónir út á skip og kvóta við upphaf árs, getur að ári liðnu aðeins endurheimt 20 milljónir og tapar 120 milljónum. Í þessu dæmi hefur útvegsmanninum tekizt að ná 120 milljónum króna af bankanum í gegnum kvótann. Svikull bankastjóri gæti séð sér hag í slíkum viðskiptum, einkum ef ríkið tekur á sig tapið á endanum. Af þessu má ráða hættuna, sem fylgir langtímaleigu aflaheimilda, sé ekki tekið fyrir veðsetningu þjóðareignarinnar. Sé kvóta úthlutað til margra ára í senn, margfaldast tapið, sem viðskipti af þessu tagi geta lagt á bankann og aðra, þar á meðal lánardrottna og hluthafa bankans og skattgreiðendur. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að lúta sömu lögum og önnur fyrirtæki og annað fólk. Engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra án leyfis. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Hugsum okkur mann, sem tekur bíl á leigu á mánudagsmorgni. Hann fær bílinn afhentan til leigu í fimm daga og greiðir t.d. 100 þúsund krónur fyrir fram fyrir leiguna til föstudagskvölds, eða 20 þúsund krónur á dag. Það, sem hann hefur í reyndinni keypt, er skírteini, sem veitir honum rétt til að nota bílinn í fimm daga. Skírteinið, það er leiguréttinn, getur maðurinn með leyfi bílaleigunnar framselt til annars manns, sem tekur þá á sig skuldbindingu hins fyrr nefnda, það er skylduna til að skila bílnum óskemmdum í vikulok. Skírteinið er 100 þúsund króna virði á mánudagsmorgninum og 80 þúsund króna virði á þriðjudagsmorgni, því að þá eru aðeins fjórir dagar eftir af leigutímanum. Leigutakinn gæti hugsanlega farið í bankann sinn beint úr bílaleigunni á mánudeginum og tekið lán til fjögurra daga að upphæð 20 þúsund krónur og lagt skírteinið frá bílaleigunni að veði með leyfi bílaleigunnar. Standi lánþeginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, yfirtekur bankinn skírteinið, sem er þá 20 þúsund króna virði og veitir bankanum afnot af bílnum á föstudeginum. Bankinn vill ekki veita hærra lán en 20 þúsund krónur með veði í leiguskírteininu vegna þess, að andvirði þess er komið niður í 20 þúsund krónur á fimmtudeginum. Aðeins óábyrgur eða óheiðarlegur bankastjóri myndi veita 100 þúsund króna lán með veði í leiguskírteininu, því að veðið myndi þá ekki bæta bankanum nema að 1/5 hluta vanskil á láninu. Hugsum okkur nú annan mann í sömu sporum. Hann fer beint í bankann sinn á bílnum, sem er fimm milljóna króna virði, og tekur lán til fjögurra daga að upphæð fimm milljónir króna og 20 þúsund. Hann veðsetur þannig bílinn fyrir fimm milljónir og leiguskírteinið fyrir 20 þúsund. Ef hann stendur í skilum við bankann á fimmtudeginum, hefur hann fengið afnot af fimm milljónum og 20 þúsundum betur í fjóra daga og er að því leyti betur settur en hefði hann tekið aðeins 20 þúsund krónur að láni með skírteinið eitt að veði. Standi hann á hinn bóginn ekki í skilum við bankann á fimmtudeginum, getur bankinn gengið að manninum og tekið af honum leiguskírteinið, sem er 20 þúsund króna virði. Bankinn getur ekki gengið að bílaleigunni, enda hefði hún aldrei veitt leigutakanum heimild til að veðsetja bílinn. Bankinn tapar því fimm milljónum. Þannig hefur leigutakanum tekizt að ná fimm milljónum króna af bankanum í gegnum bílaleiguna. Ekki bara það. Leigutakinn í dæminu hefur berlega framið umboðssvik í skilningi 249. greinar hegningarlaga, en þar segir: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“ Í þessu felast þau augljósu sannindi, að engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra í leyfisleysi. Þessi einfalda dæmisaga lýsir hugsuninni á bak við auðlindaákvæðið í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár. Þar segir: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.“ Í þessum orðum felst, að skip með kvóta megi veðsetja aðeins upp að því marki, sem nemur verðmæti skipsins sjálfs og veiðiréttarins með leyfi eigandans, það er almannavaldsins í umboði þjóðarinnar. Í frumvarpinu segir einnig: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Hugsum okkur loks útvegsmann, sem kaupir fiskiskip með kvóta, það er réttinn til að veiða 120 tonn af fiski á einu ári eða tíu tonn á mánuði. Hugsum okkur, að skipið sjálft sé 20 milljóna króna virði og aflinn 120 milljóna virði. Taki útgerðarmaðurinn lán í banka til eins árs með veði í skipi og veiðirétti, myndi gætinn bankastjóri ekki lána manninum meira en 20 milljónir. Það stafar af því, að standi lántakandinn ekki í skilum að ári, getur bankinn aðeins tekið yfir skipið, en ekki kvótann, því að hann er uppveiddur eftir árið og einskis virði. Banki, sem lánar manninum 140 milljónir út á skip og kvóta við upphaf árs, getur að ári liðnu aðeins endurheimt 20 milljónir og tapar 120 milljónum. Í þessu dæmi hefur útvegsmanninum tekizt að ná 120 milljónum króna af bankanum í gegnum kvótann. Svikull bankastjóri gæti séð sér hag í slíkum viðskiptum, einkum ef ríkið tekur á sig tapið á endanum. Af þessu má ráða hættuna, sem fylgir langtímaleigu aflaheimilda, sé ekki tekið fyrir veðsetningu þjóðareignarinnar. Sé kvóta úthlutað til margra ára í senn, margfaldast tapið, sem viðskipti af þessu tagi geta lagt á bankann og aðra, þar á meðal lánardrottna og hluthafa bankans og skattgreiðendur. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfa að lúta sömu lögum og önnur fyrirtæki og annað fólk. Engum má haldast uppi að veðsetja eigur annarra án leyfis.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Fögnum vopnahléi og krefjumst varanlegs friðar Svandís Svavarsdóttir,Guðmundur Ingi Guðbrandsson Skoðun