Skoðun

… en það geri ég ekki

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Þegar ég var ungur oflátungur í menntaskóla datt einhver okkar félaganna niður á eitt eintak úr hinni stórgóðu ritröð Íslenzk fyndni. Þar mátti finna margan gullmolann, sem reyndar brutu margir í bága við heiti bókarinnar. Þóttu í það minnsta ekki jafn fyndnir við lestur þeirra og þegar þeir voru saman settir. Einn þeirra lögðum við þó á minnið og hann var sagður daglega í einhver ár. Þá og aðeins þá varð hann fyndinn. Hann er svohljóðandi:

„Maður nokkur kemur á bæ og spyr hvort bónda vanti ekki vinnumann. Bóndi játti því. Bóndi spyr mann hvað hann kunni til verka. Maður svarar: Slegið get ég ekki. Rakað get ég í þurru, en það geri ég ekki.".

Undanfarið hefur þessi gamli brandari sótt æ fastar á hugann. Engum blöðum er um það að fletta að íslensk þjóð gekk í gegnum efnahagslegar hamfarir. Síðan eru liðin bráðum tvö og hálft ár og íslenskt samfélag sem heild hefur það, jú takk fyrir, bara ágætt miðað við margar aðrar þjóðir.

Með þessu er á engan hátt verið að gera lítið úr skelfilegri stöðu sem fjöldi fólks býr við, fólk sem glímir við atvinnuleysi til lengri eða skemmri tíma, heimilismissi, eða þarf að norpa í biðröð til að geta séð sér og börnum sínum farborða. Þetta er óumdeilt og þetta eru vandamál sem þjóðin þarf að takast á við; þjóðin öll.

En því hefur brandarinn miður fyndni leitað á huga minn að síðan kreppan varð er eins og við sem þjóð höfum verið lostin eldingu barlóms. Við höfum endurtekið daglega að ástandið sé skelfilegt, allt sé að fara til fjandans og ekkert verði okkur til bjargar nema bara akkúrat eitthvað annað en það sem verið er að gera. Og líkt og brandarinn varð fyndinn okkur menntskælingum forðum tíð, hefur barlómurinn orðið íslenskri þjóð bjargfastur sannleikur.

Hættum þessum barlómi. Tökum saman höndum og hjálpum þeim sem virkilega þurfa á hjálp að halda og einhendum okkur síðan í að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Samstaða, trú á okkur sjálf og það að ástandið verði betra fleytir okkur áfram.








Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×