Skoðun

Aldrei, aldrei

Kjartan Jóhannsson skrifar

Helstu stjórnmálamenn landsins og framámenn á ýmsum sviðum hafa undanfarna daga þingað um skuldavandann og þar á meðal reifað að lífeyrissjóðir skuli beint eða óbeint fórna hluta af eignum sínum til þess að borga fyrir almenna niðurskrift skulda.

Hugleiðingarnar um aðkomu lífeyrisjóðanna eru vondar. Sjóðirnir eru eign þeirra sem í þá greiddu og enginn stjórnmálamaður getur tekið sér rétt til þess að ráðskast með þá. Ömurlegast er vitaskuld að horfa upp á að þeir sem teljast talsmenn alþýðu og launafólks skuli fást til að ræða þvílíka ósvinnu. Fráleitast og furðulegast af öllu er þegar fyrrverandi forystumenn samtaka launþega hafna ekki slíku tali umsvifalaust. Þar hverfur trúverðugleiki þeirra. Lífeyrissjóðir eru reistir á trúnaðarsambandi launafólks við stjórnvöld. Með löggjöf var launamanninum gert að trúa lífeyrissjóðnum fyrir hluta af afrakstri vinnu sinnar, hluta af launum sínum, til þess að geyma þau fyrir hann til elliáranna, frekar en að hann forvaltaði þessa peninga sjálfur. Þennan sáttmála má ekki rjúfa.

Enginn stjórnmálamaður, hvar í flokki eða skoðanahópi sem hann stendur, á að láta sér til hugar koma eignaupptöku af því tagi sem hér um ræðir. Allir þeir flokkar sem hafa átt fulltrúa á Alþingi undanfarna áratugi, hvort sem þeir eru nú utan stjórnar eða innan, hafa átt sína hlutdeild í gerð og viðhaldi þessa sáttmála launamannsins við sjóð sinn, löggjafann og ríkisvald. Því er ótrúlegt og dapurlegt að horfa á tillögur frá sumum stjórnmálaflokkanna eða áhrifamanna innan þeirra, þar sem ekki grillir í skilning á ábyrgð þeirra á sáttmálanum fyrir áfergju í almenna niðurskrift skulda. Slíkt sómir ekki, engum flokki, engum stjórnmálamanni.

Sú stofnun, það stjórnvald, sem gerði öllum að leggja hluta af tekjum sínum í lífeyrissjóð, getur ekki og má ekki síðar ákveða að láta hirða þennan sparnað til annarra verkefna. Það væru griðrof. Aldrei, aldrei, má það gerast.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×