Íslenski boltinn

Umfjöllun: Ísland úr leik eftir tap gegn Frökkum

Hjalti Þór Hreinsson á Laugardalsvelli skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik gegn Króatíu.
Hólmfríður Magnúsdóttir í landsleik gegn Króatíu. Fréttablaðið/Valli

Það var alltaf ljóst að það þyrfti magnaðan leik frá íslenska landsliðinu til að vinna Frakka, hvað þá 3-0 eins og markmiðið var. Ísland átti við ofurefli að etja í dag og tapaði 0-1.

Íslenska liðið byrjaði vel og fékk tvö fín færi í upphafi leiks en nýtti þau ekki. Frakkar tóku þá strax við sér og réðu nákvæmlega öllu á vellinum.

Íslenska liðið tók aftur við sér undir lok hálfleiksins sem var markalaus og fremur tíðindalítill. Frakkar fengu miklu betri færi, tvö dauðafæri en íslenska liðið ekkert.

Besta tækifærið kom þegar Hólmfríður gat skotið úr góðu færi en hún ákvað að senda boltann og færið fór út um þúfur.

Jafnræði var með liðunum í upphafi seinni hálfleiks en eftir fimmtán mínútna leik skoruðu Frakkar. Löng sending kom innfyrir vörnina, Guðbjörg ætlaði út í boltann en hætti við. Það reyndist slæm ákvörðun, hún gat ekkert gert þegar Gaëtane Thiney vippaði yfir hana.

Hólmfríður komst ein í gegnum vörn Frakka en virtist ekki vita hvað hún ætlaði að gera. Í stað þess að skjóta var hún alltof lengi með boltann og tapaði honum. Edda Garðarsdóttir tók svo hornspyrnu sem fór í stöngina fjær og út.

Frakkar fengu dauðafæri undir lok leiksins en skoruðu ekki, sem betur fer.

Íslenska liðið á hrós skilið fyrir baráttu og vilja en óskynsemi og rangar ákvörðunartökur voru of algengar í leiknum. Frakkar áttu sigurinn skilinn.

Ísland er þar með úr leik og kemst ekki í lokakeppni HM í ár. Frakkar fara í umspil um laust sæti þar.

Ísland 0-1 Frakkland

0-1 Gaëtane Thiney (60.)

Áhorfendur: 3710

Skot (á mark): 9-12 (3-6)

Varið: Guðbjörg 4 - Sapowicz 3

Horn: 4-5

Rangstöður: 1-4

Aukaspyrnur fengnar: 11-12

Lið Íslands:

Guðbjörg Gunnarsdóttir

Sif Atladóttir

Ólína Viðarsdóttir

Katrín Jónsdóttir

Rakel Hönnudóttir (46. Guðný Björk Óðinsdóttir)

Edda Garðarsdóttir

Sara Björk Gunnarsdóttir

Dóra María Lárusdóttir

Margrét Lára Viðarsdóttir (78. Hallbera Guðný Gísladóttir)

Hólmfríður Magnúsdóttir

Dagný Brynjarsdóttir (68. Kristín Ýr Bjarnadóttir)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×