Íslenski boltinn

FH-ingar komnir í bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
FH-ingar tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleiknum með því að vinna 3-1 sigur á spútnikliði bikarkeppninnar í ár, Víkingi frá Ólafsvík en leikurinn fór fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði í kvöld.

Þetta er í fimmta sinn sem FH-ingar fara alla leið í bikarúrslitaleikinn en þeir unnu sinn fyrsta og eina bikarmeistaratitil þegar þeir komust þangað síðast fyrir þremur árum.

Gunnar Már Guðmundsson kom FH í 1-0 á 40. mínútu en FH-ingurinn Tommy Nielsen jafnaði leikinn með því að setja boltann í eigið mark aðeins tveimur mínútum síðar.

Atli Viðar Björnsson og Matthías Vilhálmsson tryggðu FH síðan sigurinn með tveimur mörkum í seinni hálfleiknum, Atli Viðar með skalla eftir sendingu Matthíasar en Matthías úr víti sem Björn Daníel Sverrisson fékk.

Þetta var fyrsta tap Víkinga síðan 12. september í fyrra en þeir voru búnir að leika 26 leiki í röð í deild (13), bikar (5), deildarbikar (7) og 1. deild (1) án þess að tapa.

Nánar verður fjallað um leikinn á Vísi í kvöld.

Smelltu hér til að opna Boltavaktina og lesa lýsingu leiksins: FH - Víkingur Ó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×