Íslenski boltinn

Skagamenn styrkja sóknina með framherja frá Middlesbrough

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Arnþór
Skagamenn hafa styrkt liðið sitt með framherjanum Gary Martin en hann skrifaði í gærkvöldi undir samning um að leika með liðinu út tímabilið. Martin sem er tvítugur að aldri og kemur frá enska 1.deildarliðinu Middlesbrough er öflugur framherji.

„Gary Martin samdi við okkur í kvöld og við munum reyna að fá leikheimild fyrir hann svo hann geti verið með á morgun gegn Fjarðabyggð." sagði Þórður Guðjónsson framkvæmdastjóri KFÍA á heimasíðu félagsins. "Vonandi getur Martin verið í leikmannahópnum á morgun. Okkur líst mjög vel á Martin og á hann vonandi eftir að styrkja okkur mikið" sagði Þórður.

Gary Martin hefur leikið 26 leiki með varaliði Middlesbrough og skorað 17 mörk. Þá lék hann 39 leiki með unglingaliði félagsins og skoraði 19 mörk. Á síðasta keppnistímabili var hann lánaður um tíma til ungverska liðsins Ujpest FC og skoraði þar tvö mörk í fjórum leikjum.

Skagamenn eru eins og er í 6. sæti 1. deildar karla með 16 stig úr 12 leikjum. Það eru fimm stig í næsta lið sem er Fjölnir og ÍA er 9 stigum á eftir Leikni sem er eins og er í öðru sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×