Skoðun

Öruggari og skemmtilegri miðborg

Sóley Tómasdóttir skrifar um borgarmál

Miðborg Reykjavíkur hefur upp á svo miklu meira að bjóða en bara verslun og þjónustu. Líflegur Austurvöllur og endurnar á tjörninni, höfnin, Hljómskálagarðurinn og Bakarabrekkan hafa aðdráttarafl með tilveru sinni einni saman. Þessir staðir eru þó mest sóttir að sumarlagi og því oft helst til dauflegt um að litast í miðborginni á köldum vetrardögum. Þessu má auðveldlega breyta.

Útivist og hreyfing að vetrarlagi þarf ekki að kalla á ferðalög til fjalla eða heiða. Arnarhóll er ein besta fjölskyldusleðabrekka á landinu, á tjörninni geta verið frábærar aðstæður til skautaiðkunar og Hljómskálagarðurinn er ekki síður fallegur á vetrum. Miðborgin á að geta verið lífleg og skemmtileg allan ársins hring.

Allt fram að lokum seinni heimstyrjaldar voru tilkynningar frá lögreglustjóra um sleðaferðir barna algengar í dagblöðum. Öll umferð bifreiða var þá bönnuð á ákveðnum götum og börnin gátu frjáls og áhyggjulaus stundað þessa vinsælu iðju. Sambærilegar tilraunir voru gerðar á sjötta áratugnum, en siðurinn er með öllu aflagður í dag. Hvers vegna er ekki vitað - en ólíklegt verður að teljast að það hafi verið vegna áhugaskorts meðal barna.

Á undanförnum misserum hafa borgaryfirvöld aftur tekið upp á því að loka götum fyrir bílum. Pósthússtræti hefur nú verið lokað með reglulegu millibili að sumarlagi við góðar undirtektir og tilraunir með lokun Laugavegarins sl. haust gengu framar vonum.

Í dag munu Vinstri græn leggja fram tillögu í umhverfisráði Reykjavíkur um lokun Lækjargötu frá Hverfisgötu að Geirsgötu þegar aðstæður eru til sleðaferða á Arnarhóli. Lokunin yrði þannig hluti af grænum skrefum borgarinnar og yrði án efa til þess að skapa fjölbreyttara líf í miðborginni, fjölga útivistarmöguleikum barna og fjölskyldna og hvetja fólk til útivistar og hreyfingar yfir vetrartímann.

Höfundur er borgarfulltrúi Vinstri grænna.










Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×