Íslenski boltinn

Ólafur: Ekki fallegasti leikurinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Landsliðsþjálfararnir á laugardaginn.
Landsliðsþjálfararnir á laugardaginn. Fréttablaðið/Pjetur
„Við vorum miklu betri en þeir og 4-0 eru fín úrslit,“ sagði Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Íslands, eftir sigurinn örugga á Andorra í vináttulandsleik á Laugardalsvelli um helgina. „Leikurinn var vissulega ekki sá fallegasti og það tekur okkur tíma að brjóta svona lið niður. Okkur gekk illa í fyrri hálfleik að komast í gegnum þá, við vorum svolítið staðir og lítil hreyfing á liðinu. Boltinn gekk hægt og illa. Svo lagaðist það í seinni hálfleik og hann var betri þó hann hafi ekki verið neitt sérstakur.“ Ólafur tekur það á sig hve illa gekk í fyrri hálfleiknum. „Ég hefði átt að leyfa mínum mönnum að spila aðeins frjálsar í fyrri hálfleik. Menn voru niðurnjörvaðir í einhverju kerfi og hafa kannski ekki þorað að breyta út af því vegna þess að ég sagði þeim að gera það svoleiðis. Ég sagði í hálfleiknum að menn mættu nú alveg hlaupa aðeins út úr stöðunum sínum og gera eitthvað sem þeir eru ekki vanari að gera. Menn fóru þá að hreyfa sig betur og fleiri möguleikar opnuðust,“ sagði landsliðsþjálfarinn og hélt áfram: „Ég er ánægður með að við náðum að halda þolinmæðinni og klára leikinn. Við fórum ekki út í eitthvað kæruleysi og stæla,“ sagði Ólafur. Andorra spilaði virkilega leiðinlegan leikstíl og tafði þótt liðið væri undir í leiknum. „Stundum förum við inn í leiki þegar við spilum gegn sterkum þjóðum og spilum ekki ósvipað. Við viljum þá drepa leikinn niður og andstæðingurinn þarf að sýna þolinmæði.“ Ungir leikmenn fengu að sýna sig í leiknum, þar á meðal Kolbeinn og Gylfi Þór Sigurðsson sem var að leika sinn fyrsta A-landsleik. „Mér fannst ungu strákarnir sýna mér fína takta. Þetta eru strákar sem eru í fínu lagi,“ sagði Ólafur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×