Handbolti

Schwenker: Engin mútustarfssemi í Kiel

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Uwe Schwenker ræðir við fjölmiðlamenn í Hamburg í gær.
Uwe Schwenker ræðir við fjölmiðlamenn í Hamburg í gær. Nordic Photos / Bongarts

Uwe Schwenker, framkvæmdarstjóri þýska handknattleiksliðsins Kiel, segir það af og frá að félagið hafi mútað dómurum leikja til að hagræða úrslitum þeirra.

Í gær birti þýska dagblaðið Flensburger Tagesblatt frétt þar sem greint var frá því að Schwenker hafi verið ásakaður um að hafa mútað dómurum leiks Kiel og Flensburg í síðari úrslitaviðureign liðanna í Meistaradeild Evrópu árið 2007.

Schwenker sat svo fund með forráðamönnum þýsku úrvalsdeildarinnar í gær og sagði á blaðamannafundi eftir fundinn að Kiel hefði enga mútustarfssemi stundað.

Reiner Witte, forseti þýsku úrvalsdeildarinnar, sagði við fjölmiðlamenn að engar sannanir hefðu komið fram í dagsljósið. Það myndi koma í ljós á næstu dögum hvort gripið yrði til frekari aðgerða.

Dómararnir sem dæmdu umræddan leik eru frá Póllandi og birti pólska handknattleikssambandið yfirlýsingu í gær þar sem mönnum þar á bæ þótti ólíklegt að ásakanirnar væru réttar.

Hins vegar hafa fleiri ásakanir komið á yfirborðið í kjölfarið á þessu máli. Til að mynda að Kiel hafi stundað mútustarfssemi allt frá árinu 2000 og þá aðeins í alþjóðlegum keppnum líkt og Meistaradeild Evrópu.

Joachim Boldsen var fyrirliði Flensburg á þessum tíma og fékk að líta rauða spjaldið strax í fyrri hálfleik í umræddum úrslitaleik. Engu að síður segja forráðamenn Flensburg að þeir hafi enga ástæðu til að gruna að dómurunum hafi verið mútað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×