Skoðun

Kvenlíkaminn vígvöllur í stríði

Magnea Marinósdóttir skrifar

Kerfisbundnar nauðganir á konum í svokölluðum „nauðgunarbúðum" voru liður í þjóðernishreinsunum serbneska stjórnarhersins á múslimum í Bosníu árið 1992-1995. Talið er að um 500 þúsund konum og stúlkum hafi verið nauðgað þegar þjóðarmorðin í Rúanda voru framin árið 1994.

Kynbundið ofbeldi hefur fylgt stríði frá örófi alda. Eftir þjóðarmorðin í Bosníu og Rúanda urðu hins vegar þau vatnaskil að stofnaðir voru sérstakir dómstólar til að dæma stríðsglæpamenn og voru nauðganir meðal kæruatriða. Sakfellingar hafa ekki verið margar. Allar sakfellingar hafa þó mikið vægi til að vega upp á móti því refsileysi sem hefur verið við lýði gagnvart nauðgunum í stríði og ekki síður á friðartímum. Eftir því sem konur eru undirokaðri í samfélögum sínum á friðartímum, því hörmulegra verður ofbeldið á stríðstímum.

Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi var samþykkt árið 2000. Samþykktin felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að raunverulegur friður og öryggi séu ekki fyrir hendi ef helmingur mannkyns býr í skugga ofbeldis og ótta. Ályktunin felur í sér endurskilgreiningu öryggishugtaksins frá því að vera takmarkað við þjóðaröryggi ríkisins yfir í mannöryggi, sem lýtur að öryggi einstaklinga eða hópa. Ályktunin var mikill áfangasigur í mannréttindabaráttu kvenna.

Nú, níu árum síðar, hefur öryggisráð SÞ auk þess samþykkt ályktun 1820 sem fordæmir notkun kynbundins ofbeldis sem vopn í stríðsátökum, 1888 sem skerpir á skyldum friðargæslusveita að vernda sérstaklega konur og stúlkur gegn kynbundnu ofbeldi og 1889 sem áréttar mikilvægi þess að konur komi að friðaruppbyggingu eftir stríð. Lokaályktunin á að tryggja það að uppbygging eftir stríð skili sér ekki í afturhvarfi til fortíðar fyrir konur, endurreisn misréttis. Rúanda er dæmi um slíkt. Aukin völd kvenna í Rúanda eftir þjóðarmorðin 1994 hafa meðal annars leitt til þess að rótgróin feðraveldislög, sem enn eru við lýði í mörgum löndum og t.d. meina konum að eiga land, hafa verið afnumin auk þess sem lög hafa tekið gildi sem miða að því að binda enda á heimilisofbeldi og annað misrétti.

Höfundur er stjórnmálafræðingur og varaformaður UNIFEM á Íslandi.






Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×