Viðskipti innlent

Kaupþing spáir 10 prósenta hagvexti

Greiningardeild Kaupþings spáir 10 prósenta hagvexti á fyrsta fjórðungi ársins en eitthvað minni vexti á næstu fjórðungum.
Greiningardeild Kaupþings spáir 10 prósenta hagvexti á fyrsta fjórðungi ársins en eitthvað minni vexti á næstu fjórðungum.

Greiningardeild Kaupþings spáir því að hagvöxtur verði við 10 prósent á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Má vöxtinn einkum rekja til um 25 prósenta vaxtar í útflutningi á vöru og þjónustu á fjórðungnum.

Greiningardeildin bendir á í Hálffimmfréttum sínum í dag að samkvæmt tölum frá Seðlabankanum hafi dregið verulega úr viðskiptahallanum á fyrsta fjórðungi ársins. Megi það einkum rekja til umtalsverðrar aukningar í útflutningi á vörum en útflutningsverðmæti áls hefur rúmlega tvöfaldast á milli ára. Þá hafa óreglulegir liðir eins og útflutningur á flugvélum jákvæð áhrif á útflutning, að mati deildarinnar. Samhliða þessu megi ætla að innflutningur hafi dregist saman um sex prósent á sama tíma.

Þá segir að vísbendingar séu um að vöxtur einkaneyslu hafi dregist saman. Er bent á minni kortaveltu heimila, innflutning á neysluvörum og fólksbifreiðum því til sönnunar. Er það mat greiningardeildarinnar að gera megi ráð fyrir að vöxtur einkaneyslu á fyrsta ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra hafi verið lítill sem enginn. Megi svo gera ráð fyrir því að fjárfestingar muni dragast hratt saman þegar líða taki á árið samhliða því sem stóriðjuframkvæmdum lýkur. Reiknar greiningardeildin með allt að 20 prósenta samdrætti í fjárfestingum á árinu.

Greiningardeildin spáir því að hagvöxtur muni verða minni á næstu ársfjórðungum. Gangi það eftir muni það tefja fyrir stýrivaxtalækkunarferli Seðlabankans, að mati deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×