Viðskipti innlent

Hagnaður Actavis lækkar

Róbert Wessmann, forstjóri Actavis.
Róbert Wessmann, forstjóri Actavis. MYND/Vísir

Actavis birti í dag fyrsta ársfjórðungsuppgjör ársins. Hagnaður dróst saman um 15,3% í 27 milljónir evra, og undirliggjandi hagnaður (að frátöldu afskriftum á yfirverði vegna fyrirtækjakaupa) dróst saman um 7,8% og var 32,4 milljónir evra. Fjórðungurinn var sá tekjuhæsti í sögu félagins og jukust tekjur um 11,9% í 382,7 milljónir evra en árið áður var hagnaðurinn 341,9 milljónir evra.

Lækkun hagnaðar skýrist að mestu leiti af hærri afskriftum og auknum vaxtakostnaði samstæðunnar vegna ýmissa fjárfestingarverkefna. EBITDA hlutfall nam 20,7% í fjórðungnum, án tillits til dreifingar lyfja í Mið og Austur Evrópu var EBITDA framlegðin 23,1%

Undirliggjandi vöxtur, án tillits til fyrirtækjakaupa eða gengisáhrifa, nam 8,3%, sem skýrist einkum af góðum árangri í Bretlandi, Þýskalandi og Rússlandi.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis, sagði að árið hefði farið vel af stað hjá þeim. „Árið fer vel af stað hjá okkur og ánægjulegt að sjá góðan viðsnúning á mörkuðum okkar í Þýskalandi og Bretlandi." Róbert sagði árangur Actavis góðan í Rússlandi og Bandaríkjunum og vöxtur samstæðunnar og framlegð hefðu verið í samræmi við útgefin markmið.

„Á síðari hluta ársins munum við sjá aukinn fjölda markaðssetninga nýrra lyfja og framlegð og vöxtur mun styrkjast eftir því sem líður á árið. Samhliða góðum undirliggjandi vexti munum við halda áfram að skoða áhugaverð tækifæri til vaxtar og framfylgja stefnu okkar um að koma Actavis í enn sterkari stöðu á heimsmarkaði" sagði Róbert að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×