Viðskipti innlent

Skuldir heimilanna jukust um 2,6 milljarða

Glitnir banki.
Glitnir banki.

Skuldir heimilanna við innlánsstofnanir, viðskiptabanka og sparisjóði, námu 716 milljörðum króna í lok janúar. Mestur hluti skuldanna eru íbúðalán sem byrjað var að veita í lok ágúst árið 2004 en þau námu 389 milljörðum króna og jukust um 2,6 milljarða krónur á milli mánaða. Þá hafa yfirdráttarlán heimilanna aukist nokkuð en þau hafa ekki verið hærri síðan í febrúar í fyrra, að sögn greiningardeildar Glitnis.

Greiningardeildin segir í Morgunkorni sínu í dag að nær helming aukningarinnar í mánuðinum megi skýra með verðbótum. Til viðbótar því komi vextir. Þá bendir deildin jafnframt á að bankarnir hafi ekki veitt jafn lítið af íbúðalánum í einum mánuði frá því að þeir fóru inn á þann markað í ágúst 2004.

Greiningardeildin bendir á að yfirdráttarlán heimilanna hafi numið 72 milljörðum króna á sama tíma og hafi þau hækkað um tæplega 5 milljarða krónur í mánuðinum. Yfirdráttarlánin hafa ekki verið hærri frá því í lok febrúar fyrir rétt tæplega fyrir ári síðan, að sögn deildarinnar sem bætir við að um sé að ræða tiltölulega lítinn hluta af heildarskuldum heimilanna. Þau beri hins vegar almennt afar háa vexti eða allt frá 20 prósentum til 24 prósent. Vaxtastigið markist af háum skammtímavöxtum sem eru 14,25 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×