Viðskipti innlent

Líkur á nýju tilboði í vikunni

Margt bendir til þess að hærra yfirtökutilboð verði lagt fram í Actavis fyrir vikulok.
Margt bendir til þess að hærra yfirtökutilboð verði lagt fram í Actavis fyrir vikulok.

Líklegt er að hluthöfum í Actavis muni berast nýtt yfirtökutilboð frá Novator fyrir vikulok. Formlegt tilboð Novators tók gildi 5. júní og stendur opið til 3. júlí. Í skilmálum þess kemur fram að ef breyta eigi tilboðinu innan tilboðsfrestsins verði að gera það á fyrstu tveimur vikum hans. Ella bætist tvær vikur við heildarfrestinn.

Talið er að Novator vilji síður lengja ferlið um tvær vikur. Lagt verði kapp á að ákvarða næstu skref sem fyrst.

Á föstudaginn gaf stjórn Actavis út álit þar sem hún réði hluthöfum frá því að samþykkja tilboð Novators á þeim grundvelli að verðið væri of lágt. Byggði hún álit sitt á ráðgjöf alþjóðlega fjárfestingabankans JP Morgan. Á milli Novators og bankans standa nú yfir viðræður um forsendur þeirrar ráðgjafar.

Gengi bréfa Actavis hefur hækkað um rúm tólf prósent frá því fréttir af yfirtökuáhuga bárust. Mikil viðskipti með bréfin gefa til kynna að margir fjárfestar búist við að hærra tilboð eigi eftir að berast frá Björgólfi.

Tilboð Novators hljóðaði upp á 0,98 evrur á hlut, sem nemur um 84 krónum. Sérfræðingar telja líklegt að nýtt tilboð verði á bilinu níutíu til 95 krónur á hlut. Líkurnar á að þriðji aðili komi inn í ferlið og geri hærra tilboð í félagið eru taldar hverfandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×