Viðskipti innlent

Icelandair Group selt

FL Group hefur gengið frá sölu á öllu hlutafé sínu í Icelandair Group til þriggja hópa af fjárfestum. Áætlaður söluhagnaður er um 26 milljarðar króna miðað við bókfært virði Icelandair Group í lok júní 2006 og eykst handbært fé FL Group um 35 milljarða krónur.

Fjárfestahóparnir þrír eru Langflug ehf, sem er að mestu í eigu Samvinnutrygginga hf., en það tengist meðal annars Finni Ingólfssyni, fyrrverandi forstjóri VÍS, og Helga S. Guðmundssyni, formanni bankaráðs Seðlabanka Íslands, með 32 prósenta hlut; Naust ehf, sem er að mestu í eigu BNT hf, félags í eigu Benedikts Sveinssonar, fyrrverandi stjórnarmanns flugfélagsins, og aðila tengdum honum, með 11,1 prósenta hlut; og Blue-Sky Transport Holding, sem er að mestu í eigu Ómars Benediktssonar, fyrrverandi forstjóri Íslandsflugs og flugfélagsins Atlanta. Félag hans er með 7,4 prósenta hlut.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að Glitnir sölutryggi óselt hlutafé í eigu FL Group. Þar af hefur bankinn þegar ráðstafað til fjárfesta, starfsfólks og stjórnenda Icelandair Group allt að 16 prósenta hlut. Glitnir hefur til viðbótar ráðstafað til fjárfesta og starfsfólks Icelandair Group allt að 16% hlut, þannig að alls hefur um 67% hlutafjár félagsins verið ráðstafað.

Lykilstjórnendur Icelandair Group áforma að kaupa allt að 4 prósent í félaginu en auk þess fá allir starfsmenn Icelandair Group tækifæri til að kaupa hlut í félaginu og hafa um 4 prósent hlutafjár verið tekin frá í þessum tilgangi. Þriðjungur hlutafjár í Icelandair Group verður boðið til kaups í almennu hlutafjárútboði í umsjón Glitnis, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×