Alan Pardew var að vonum vonsvikinn með niðustöðuna í kvöld þegar hans menn í West Ham steinlágu 3-0 fyrir ítalska liðinu Palermo frá Sikiley í Evrópukeppni félagsliða og eru því úr leik samtals 4-0. Pardew sagði úrslitin gefa óraunhæfa mynd af leiknum.
"Við fengum fín færi til að skora á undan þeim, en markvörður þeirra varði ótrúlega. Ef við hefðum náð að skora á undan hefði þetta galopnast og orðið spennandi. Það er alls ekki fjögurra marka munur á þessum liðum en við verðum að gjöra svo vel að gangast við mistökum okkar og reyna í framhaldinu að bæta stöðu okkar í úrvalsdeildinni. Munurinn á liðunum í dag var frammistaðan fyrir framan markið - og það sem okkur vantar uppá á þeim sviðum er bara sjálfstraust og ekkert annað," sagði Pardew.