Viðskipti innlent

Met í fasteignakaupum á fyrri hluta árs

Nýbyggingar.
Nýbyggingar.

Fjárfest var í íbúðarhúsnæði fyrir ríflega 32 milljarða krónur á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er 4,8 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra. Greiningardeild Glitnis segir að aldrei hafi verið fjárfest eins mikið í íbúðarhúsnæði á einum árshelmingi og nú.

Greiningardeildin vitnar til nýbirtra talna Hagstofunnar og segir að athygli vaki að fjárfestingar í íbúðarhúsnæði voru ríflega helmingi meiri á fyrri hluta þessa árs en þær voru á fyrri hluta árs 1997.

Ástæður eru aukinn kaupmáttur almennings mælt í íbúðarhúsnæði. Laun hafa hækkað hratt, vextir lækkað, aðgengi að lánsfé batnað og eignaverð , svo sem hlutabréfaverð, bætt eignastöðu heimilanna. Þá vekur athygli að fyrir tveimur árum þegar hagkerfið var að koma úr viðlíka niðursveiflu og spáð er á næsta ári stóð íbúðafjárfestingin í stað en dróst ekki saman.

Greiningardeildin ítrekar spá sína í Morgunkorni sínu í dag að fjárfesting í íbúðarhúsnæði dragist saman um 4,5 prósent á næsta ári og um 5,8 prósent eftir tvö ár.

„Gangi spá okkar um samdrátt í íbúðarfjárfestingu næstu tvö árin eftir verða þessi tvö ár samt meðal þriggja stærstu ára sögunnar í íbúðarfjárfestingum," segir greiningardeild Glitnis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×