Viðskipti innlent

Actavis hækkar tilboð í Pliva

Róbert Wessmann, forstjóri Actavis.
Róbert Wessmann, forstjóri Actavis. Mynd/Valgarður

Actavis hefur hækkað tilboð sitt í króatíska lyfjafyrirtækið Pliva og hljóðar það nú upp á 795 kúnur á hlut og fengið staðfestingu fjármálaeftirlits Króatíu á því. Tilboðið er 10 prósentum hærra en fyrra tilboð Actavis, sem var 723 kúnur á hlut og jafngildir tilboð félagsins 2,5 milljörðum bandaríkjadala eða um 175 milljörðum íslenskra króna.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands segir að tilboðið sé jafnframt 7 prósentum hærra en tilboðið sem bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals lagði fram í króatíska lyfjafyrirtækið en það er hljóðar upp á 743 kúnur á hlut.

Actavis á með beinum eða óbeinum hætti 20,8 prósent af útistandandi hlutafé Pliva.

Í tilkynningunni segir ennfremur að samkvæmt skilmálum tilboðs Actavis fái hluthafar í Pliva 795 kúnur á hvern hlut til viðbótar við arðgreiðslu sem nemur 12 kúnum á hlut í reiðufé og verða kaupin fjármögnuð með nýju hlutafé og lánum.

Fjármögnun tilboðs Actavis er að fullu lokið og að baki henni standa alþjóðlegu viðskiptabankarnir JP Morgan, HSBC og UBS, auk íslensku bankanna Glitnis og Landsbanka Íslands. Hefur stjórn félagsins fengið samþykki hluthafa fyrir útgáfu nýs hlutafjár sem nemur allt að 300 milljón hlutum í tengslum við kaupin.

Þá segir í tilkynningunni að með kaupunum verði til þriðja stærsta samheitalyfjafyrirtæki heims og telur Actavis að umtalsverð samlegðartækifæri liggi í kaupunum fyrir hluthafa lyfjafyrirtækisins og að tilboðið sé einnig afar áhugavert fyrir hluthafa Pliva.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×