Viðskipti innlent

Tap hjá Hitaveitu Rangæinga

Hitaveita Rangæinga tapaði 21,4 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma í fyrra tapaði hitaveitan 17 milljónum krónum. Tekjuskattur hitaveitunnar, sem greiddur verður á næsta ári, er ekki inni í árshlutareikningnum.

Í tilkynningu til Kauphallar Íslands kemur fram að rekstrartekjur hafi numið 53 milljónum króna sem er 12 milljóna aukning á milli ára.

Hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 32,3 milljónir króna en það er um tvöföldun frá sama tímabili í fyrra þegar hagnaðurinn nam 15,8 milljónum króna.

Þá kemur fram að heildareignir Hitaveitu Rangæinga hafi numið 648,4 milljónum í lok júní en það er rýrnun um 17,7 milljónir króna á milli ára.

Eigið fé nam 105,7 milljónum króna en á sama tíma fyrir ári nam það 127,1 milljón króna. Þá nema heildarskuldir hitaveitunnar 542,7 milljónum króna en þær voru 539 milljónir í lok júní á síðasta ári.

Í tilkynningunni segir að með nýjum lögum frá árinu 2005 um skattskyldu orkufyrirtækja verði fyrirtækið skattskylt vegna tekna þessa árs á næsta ári. Hafin er vinna við að reikna út hver sú fjárhæð verður en þar sem niðurstaða er ekki komin í það mál hafa ekki verið færðir neinir reiknaðir skattar í árshlutareikninginn nú.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×