Viðskipti innlent

Vísitala fasteignaverðs hækkaði í júní

Reykjavík.
Reykjavík.

Vísitala fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu mældist 309 stig í síðasta mánuði en það er 0,6 prósenta hækkun frá maí, samkvæmt upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Fasteignaverð hefur hækkað um 13,1 prósent síðastliðna 12 mánuði að jafnaði um 1 prósent undanfarið hálft ár. Hækkunin í júní er undir því meðaltali.

Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans segir að hækkun íbúðaverðs í síðasta mánuði gefi til kynna að enn sé töluvert líf í fasteignamarkaðnum þótt hægt hafi á honum. Hækkunin í júní á mánaðargrundvelli samsvarar 7,4 prósenta hækkun fasteignaverðs á ársgrundvelli.

Verð á sérbýli hækkaði um 1,3 prósent á milli mánaða í júní. Á sama tíma hækkaði verð á fjölbýli um 0,4 prósent, að sögn greiningardeildarinnar. Það sem af er ári hefur sérbýli hækkað talsvert meira í verði en fjölbýli, eða 10,2 prósent samanborið við 4,5 prósenta hækkun fjölbýlis.

Greiningardeildin segir ljóst að innkoma bankanna á fasteignalánsfjármarkað og rýmri reglur um hámarkslán- og veðsetningu hafi gert almenningi kleift að fjárfesta í dýrara húsnæði. Það hafi hins vegar lyft upp verði á sérbýli. Megi greinilega sjá þetta á því að á síðastliðnum tveimur árum hafi verð á sérbýli hækkað um tæplega 77 prósent en verð á fjölbýli um 51 prósent á sama tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×