Viðskipti innlent

Hagnaður Straums-Burðaráss minni á milli ára

Straumur-Burðarás fjárfestingarbanki hagnaðist um 307 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi 2006. Þetta er 90 prósentum minna en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam rétt rúmum þremur milljörðum króna. Hagnaður bankans á fyrstu sex mánuðum ársins nemur tæpum 19,4 milljörðum króna sem er rúmum 11,7 milljörðum meira en á sama tíma fyrir ári.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að hreinar rekstrartekjur bankans á öðrum ársfjórðungi hafi numið 1,2 milljörðum króna sem er 69,6 prósenta lækkun á milli ára en rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi í fyrra námu rúmum 3,6 milljörðum króna. Þá námu hreinar rekstrartekjur bankans 25,4 milljörðum króna sem er 168 prósenta hækkun frá sama tíma á síðasta ári þegar þær námu tæpum 9,5 milljörðum króna.

Arðsemi eigin fjár var 17,8 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins sem jafngildir 38,8 prósenta arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli. Arðsemi eigin fjár í fyrra var 46,5 prósent.

Þá nam hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum 5,9 prósentum á fyrri helmingi ársins en var 3,9 prósent í fyrra.

Hreinar þóknunartekjur tæplega fimmfölduðust á milli ára. Þær námu tæpum 3,5 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en voru 617 milljónir á sama tíma í fyrra.

Þá námu heildareignir bankans 340,8 milljónum króna í lok annars ársfjórðungs en þær voru 259,3 milljónir króna í lok síðasta árs en aukningin nemur 31 prósenti frá áramótum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×