Viðskipti innlent

MP Fjárfestingarbanki í Eystrasalti

MP Fjárfestingarbanki verður fyrsta íslenska fjármálafyrirtækið með aðild að kauphöllunum í Tallinn í Eistlandi, Ríga í Lettlandi og Vilníus í Litháen. Stjórnir kauphallanna hafa samþykkt aðild fjárfestingarbankans sem verður þar með tólfta fjármálafyrirtækið með aðild að öllum mörkuðum Eystrasaltsríkjanna.

 

Í fréttatilkynningu er haft eftir Styrmi Þór Bragasyni, framkvæmdastjóra MP Fjárfestingarbanka, að aðild að kauphöllum Eystrasaltsríkjanna veiti aðgang að mjög áhugaverðum tækifærum. „Aðildin styrkir starfsemi bankans á erlendri grund og opnar tækifæri fyrir fjárfesta og fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á þessu svæði. Við höfum verið virk í Austur-Evrópu síðustu misserin og aðildin styrkir okkar viðskiptavini á þeim slóðum enn frekar. Aðildin er ennfremur í samræmi við stefnu bankans um vöxt erlendis."

 

MP Fjárfestingarbanki sinnir eignastýringu fyrir ólíka hópa fjárfesta, annast miðlun verðbréfa á innlendum og erlendum mörkuðum og fæst við margvísleg verkefni sem tengjast þjónustu og ráðgjöf til fyrirtækja, sveitarfélaga og fagfjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×