Viðskipti innlent

Hagnaður FL Group 5,8 milljarðar króna

Hagnaður FL Group nam rúmum 5,8 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 25 milljónir króna árið á undan. Fyrir skatta nam hagnaður samstæðunnar rúmum 6,6 milljörðum króna. Árið á undan nam hagnaðurinn 25 milljónum króna.

Í tilkynningu frá FL Group segir að arðsemi eiginfjár á tímabilinu hafi numið 33,8 prósentum. Afkoma af fjárfestingastarfsemi nam 9,97 milljörðum króna fyrir skatta en á sama tímai nam árstíðabundið tap rekstrarfélaga að frádregnum samrunakostnaði hjá flugfélaginu Sterling rúmum 2,5 milljörðum króna. Að meðtöldum samrunakostnaði nam tapið rúmum 3,3 milljörðum króna.

Þá námu heildareignir félagsins í lok ársfjórðungsins 188,1 milljarði króna en það er 55,5 milljarða króna aukning frá ársbyrjun.

Ár fyrstu fjórum mánuðum ársins lauk FL Group kaupum á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling og gekk frá samningum um sölu á Ferðaskrifstofu Íslands og Bílaleigu Flugleiða. Þá er stefnt að því að skrá Icelandair Group í Kauphöll Íslands.

Haft er eftir Hannesi Smárasyni, forstjóra FL Group, að afkoma félagsins hafi verið afar góð. „Ég er ánægður með að sjá fjárfestingastarfsemina skila 10 milljarða króna hagnaði þrátt fyrir óróleika á innlendum fjármálamörkuðum.... Umbreyting Sterling gengur vonum framar og við erum ánægðir að sjá gang mála, sérstaklega þegar tekið er tillit til hinnar gríðarlegu árstíðarsveiflu í rekstri félagsins," segir hann í tilkynningu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×