Viðskipti innlent

Methagnaður hjá Landsbankanum

Hagnaður Landsbankans nam 14,3 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi ársins. Hagnaður fyrir skatta nam 17,3 milljörðum króna en til samanburðar nam hann á sama tímabili í fyrra 7,4 milljörðum króna. Þetta er methagnaður í sögu bankans.

Grunntekjur samstæðunnar (vaxtamunur og þjónustutekjur) námu 15,8 milljörðum króna og jukust um 8,4 milljarða króna á meðan rekstrargjöld jukust um 4 milljarða króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.

Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 11,2 milljörðum króna samanborið við 5,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2005.

Tekjur bankans af erlendri starfsemi námu 13 milljörðum króna. Það er í samræmi við aukna starfsemi hans en til samanburðar námu tekjurnar 2 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Heildareignir Landsbankans námu 1.770 milljörðum króna í lok mars 2006 en að teknu tilliti til veikingar íslensku krónunnar nam raunaukning heildareigna 14 prósentum.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans var 13,0 prósent í lok mars 2006. Eftir sölu Landsbankans í apríl á 20 prósenta hlut hlut í Carnegie hækkaði hlutfallið í 14,6 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×